Gjald af áfengi

Þriðjudaginn 11. desember 2001, kl. 20:03:23 (3007)

2001-12-11 20:03:23# 127. lþ. 49.7 fundur 320. mál: #A gjald af áfengi# (tóbaksgjald) frv. 149/2001, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 127. lþ.

[20:03]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég ætlaði mér ekki að blanda mér í umræðurnar um þetta frv. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson hefur lýst skoðun okkar á því. En mér fannst mjög áhugaverðar þær umræður sem fóru fram milli hæstv. fjmrh. og hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar. Ég vil gjarnan blanda mér í þær vegna þess að ég tel mikilvægt ef hugsanlega væri hægt að fá ríkisstjórnina til að breyta ýmsum ákvæðum í frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum, sem við ræðum hér á morgun og ég geri ekki sérstaklega að umræðuefni hér.

Varðandi hækkun á tóbaki finnst mér það áhugaverður kostur að skoða í samhengi við annað sem ríkisstjórnin leggur til í frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Ég tók eftir að hæstv. fjmrh. nefndi vísitöluáhrifin af hækkun á tóbaki. Það vill svo til að ég hef skoðað það mál, einmitt í samhengi við vísitöluáhrif af hækkun á innritunargjöldum og skráningargjöldum. Ég bað Hagstofuna að reikna út fyrir mig hvað það þýddi í tekjuauka fyrir ríkissjóð ef við hækkuðum tóbaksgjald um 10 krónur, þ.e. efh.- og viðskn. óskaði eftir þessum upplýsingum sem ég kom á framfæri. Upplýsingarnar skiluðu sér í dag frá forstjóra ÁTVR. Þar kom í ljós að heildsöluhækkun á tóbaki um 10 kr., þ.e. að smásöluverði á pakka hækkaði úr 430 í 447 kr. með álagningu í heildsölu og smásölu ásamt virðisauka, gæfi ríkissjóði í tekjur um 200 millj. kr.

Við erum að tala um að skráningar-, innritunar- og efnisgjöld gefi ríkissjóði í tekjur 100 millj. kr. Hækkun á tóbaksgjaldi um 10 kr., sem í útsölu þýddi 17 kr., gæfi ríkissjóði 200 millj. kr. í tekjur. Þegar við skoðum vísitöluáhrifin af þessu tvennu, þ.e. hækkun á innritunar- og skólagjöldum annars vegar og hækkun á tóbaki hins vegar kemur í ljós, samkvæmt upplýsingum Hagstofu, að þessi hækkun á tóbaksgjaldi þýddi í hækkun á vísitölu 0,07%. En hækkun á gjöldum í framhaldsskóla og háskóla, sem gefur 100 milljónir, þýðir vísitöluáhrif upp á 0,14% eða helmingi meiri áhrif inn í vísitöluna. Mér finnst sú ábending sem fram kom hjá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni, um að þetta yrði skoðað í stað ýmislegs sem er í frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum, mjög raunhæf. Vísitöluáhrif af því að fara þessa leið eru minni auk þess sem þetta gefur ríkissjóði meira í tekjur. Efnislega er þar fyrir utan skynsamlegra að hækka tóbak, sem væri þá veruleg forvarnaaðgerð. Eins og fram kom í umræðunum þá er hækkun á tóbaki helsta ástæða þess að fólk reyni að hætta að reykja. Á hinn bóginn er um það að ræða að hækka gjöld á námsmenn með ýmsum afleiðingum, sem ég held að séu miður í heildina fyrir þjóðfélagið en ekki síst fyrir námsmenn.

Þetta vildi ég segja við umræðuna og bið hæstv. ráðherra að skoða hug sinn í þessu máli. Það er ekki of seint, þó að það komi ekki inn í þetta frv., að taka hækkun á tóbaksgjaldi inn í ráðstafanir í ríkisfjármálum í stað þeirra hækkana sem eiga að ganga fram varðandi innritunar- og skráningargjöld.

Af því að við erum að ræða vísitöluna í heild sinni, sem við komum örugglega inn á á morgun í tengslum við ráðstafanir í ríkisfjármálum þá eru mjög óæskileg áhrif af því frv. á vísitöluna á heildina litið. Ég ætla ekki að fara nánar út í það en með áformuðu áfengisgjaldi og með breytingum sem á að gera á ýmsum ákvæðum í heilbrigðisþjónustunni, eins og komugjöldum, lyfjakostnaði og komugjöldum til sérfræðilækna, hefur Þjóðhagsstofnun í samráði við Hagstofuna metið það svo að vísitöluáhrifin af frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum, sem við ræðum á morgun, séu 0,35%. Það er auðvitað afar óæskilegt miðað við aðstæður og með hliðsjón af því að aðilar vinnumarkaðarins eru að reyna að koma sér saman um aðgerðir til þess að ná niður verðbólgunni. Þar eru menn að tala um að reyna að slá á verðbólguna um kannski 0,5% eða eitthvað í þeim dúr en hér munum við á morgun ræða aðgerðir í ríkisfjármálum sem hækka vísitöluna um 0,35%.

Ég bið hæstv. ráðherra því að skoða þá leið sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson benti á og er í alla staði skynsamlegri hvernig sem á málið er litið.