Gjald af áfengi

Þriðjudaginn 11. desember 2001, kl. 20:13:36 (3010)

2001-12-11 20:13:36# 127. lþ. 49.7 fundur 320. mál: #A gjald af áfengi# (tóbaksgjald) frv. 149/2001, Frsm. VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 127. lþ.

[20:13]

Frsm. efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel mig hafa alveg þokkalegt vit á því sem ég er að tala um. Einkaneyslan í landinu á næsta ári er áætluð einhvers staðar í kringum 440 milljarðar. Til þess að hækka þá tölu um 0,1% þarf 440 millj. kr. Þessar áætlanir um 0,11% hækkun á áfengisgjaldi og síðan 0,09% hækkun sem eigi í raun að flytja enn þá meiri peninga til ríkissjóðs eru nálægt lagi, en samtals eru þeir útreikningar ekkert svo fjarri lagi að þetta séu einhvers staðar í kringum 0,2% hækkun á vísitölu, þ.e. samtals af þessum tveimur liðum.

Hins vegar er það bara þannig og ég stend hér galvaskur og segi --- ég tel mig hafa stundað þessa reikninga töluvert mikið sjálfur hér á árum áður --- að það er einfaldlega rangt að halda því fram að tilfærsla frá heimilunum til ríkisins upp á 100 millj. kr. geti komið fram sem 0,14% hækkun á vísitölu framfærslukostnaðar. Það getur alls ekki gengið upp. Til þess að koma slíkri hækkun í gegn þarf upphæð sem væri á milli 600 og 700 millj., líklega nær 700 millj. Ég hef haft samband bæði við Þjóðhagsstofnun og Hagstofuna út af þessu máli og ég á von á því að þessi tala endi í því að verða nokkuð rétt fyrir rest, þ.e. að hækkunin vegna menntamálapakkans, þar sem tölurnar eru eitthvað kringum 100 millj. sem verið er að færa til ríkissjóðs, endi í vísitöluhækkun upp á núll komma núll eitthvað. Það eru alla vega nokkur núll á undan en hvergi nærri þessi 0,14% heldur fremur 0,02%.