Gjald af áfengi

Þriðjudaginn 11. desember 2001, kl. 20:15:51 (3011)

2001-12-11 20:15:51# 127. lþ. 49.7 fundur 320. mál: #A gjald af áfengi# (tóbaksgjald) frv. 149/2001, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 127. lþ.

[20:15]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Eins og ég sagði áðan finnst mér mjög sérkennilegt að hv. þm. standi hér og gagnrýni bæði Þjóðhagsstofnun og Hagstofuna og vefengi þeirra útreikninga. (Gripið fram í.)

Ég heyrði það í dag þegar þetta endurskoðaða álit Þjóðhagsstofnunar kom að hv. þm. var ósáttur við þá niðurstöðu, um 0,35% áhrif af þessum ráðstöfunum ríkisstjórnarinnar. Ég hafði því samband við Þjóðhagsstofnun aftur til að ganga úr skugga um hvort nokkrar breytingar hefðu orðið á eftir samtal Þjóðhagsstofnunar við hv. þm. Mér var tjáð að þeir mundu hafa samband við Hagstofu til að endurskoða þetta aftur og ég yrði látin vita fyrir kvöldmat ef einhverjar breytingar yrðu á, vegna þess að ég er að ganga frá nál. minni hluta efh.- og viðskn. um ráðstafanir ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum og það var nauðsynlegt fyrir mig að vita það.

Ég heyrði ekkert frá Þjóðhagsstofnun um neina endurskoðun á þessu mati þeirra eða Hagstofunnar þannig að ég geng út frá því, herra forseti, að það standi, að við séum hér að tala um verðbólguáhrif um 0,35% inn í það viðkvæma ástand sem nú er þegar verið er að reyna að ná sátt á vinnumarkaðnum sem eru auðvitað mjög alvarleg tíðindi. Og mér finnst mjög sérkennilegt að ríkisstjórnin sé að vefengja álit stofnana sem eru til þess bærar. Má búast við því að hv. þm. vefengi álit Hagstofunnar á morgun þegar hún kemur með nýja framfærsluvísitölu ef sú nýja framfærsluvísitala er þingmanninum ekki að skapi?