Greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi

Þriðjudaginn 11. desember 2001, kl. 20:38:18 (3015)

2001-12-11 20:38:18# 127. lþ. 49.5 fundur 230. mál: #A greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi# (eftirlitsgjald) frv. 144/2001, ÖS
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 127. lþ.

[20:38]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Eins og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir þá skrifa ég undir þetta álit með fyrirvara.

Mig langaði í tilefni af ræðu hv. þm. Gunnars Birgissonar hérna áðan að ræða örlítið um þróun í mannahaldi hjá opinberum aðilum. Hv. þm. nefnir nauðsyn þess að halda fast í taumana og nefnir nauðsyn þess að fara vel með opinbert fé. Það á að sjálfsögðu að gerast með því að ráða ekki of mikið af opinberum starfsmönnum, að hans sögn. Gaman væri nú að vita, af því að hv. þm. stýrir öflugu bæjarfélagi, hvernig þróun í starfsmannahaldi hefur verið í Kópavogi. Hefur starfsmönnum mjög verið að fækka þar á síðustu árum? Það kann vel að vera og þá hefur hv. þm. haldið betur á spöðum í því efni en margir kollegar hans í öðrum bæjarfélögum.

Í þessu tiltekna máli, herra forseti, varðandi Fjármálaeftirlitið er það hins vegar þannig að hér er um að ræða nýja og unga stofnun. Hún hefur þegar sýnt að hún er giska burðug og hefur fengið byr í segl. Ég er sammála hv. þm. um að auðvitað eigum við að fara spart með fé skattborgaranna og ekki að ráðast í mannaráðningar hjá hinu opinbera nema þær séu algjörlega nauðsynlegar.

Ég er ekki að halda því fram, herra forseti, að það svigrúm sem þessar brtt. veita Fjármálaeftirlitinu sé ekki nægilegt um sinn. Ég rifja það hins vegar upp að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, sem skoðaði þessa stofnun, taldi að hún þyrfti að verða snöggtum mannfleiri til að geta sinnt verkefnum sínum á næstu árum. Reynslan á síðan eftir að leiða í ljós hvort það er rétt eða rangt. Ég held hins vegar, eins og málum er háttað í dag, að þessi stofnun standi býsna vel. Ég er ákaflega ánægður með það hvernig hún og aðrar eftirlitsstofnanir sem við höfum komið á legg á síðustu árum, eins og t.d. Samkeppnisstofnun, hafa sinnt verkefnum sínum.

Ég vildi hins vegar, í þessari stuttu ræðu minni, gera ákveðnar athugasemdir við vinnubrögð ráðuneytisins í þessu máli. Þær brtt. sem við erum að leggja hér til, herra forseti, spruttu ekki fram úr hugskoti hv. formanns, hv. þm. Vilhjálms Egilssonar, eða annarra sem eiga sæti í efh.- og viðskn. Hvaðan komu þær? Þær komu frá viðskrn. Viðskrn. leggur fram brtt. sem við flytjum hérna. Ég geri svo sem ekki athugasemdir við það verklag í sjálfu sér. Ég geri hins vegar athugasemdir við það að brtt. eru við frv. sem kom frá viðskrn. Viðskrn. er sem sagt að gera brtt. í gegnum nefndina við sitt eigið frv. Það vil ég gera athugasemdir við.

Allar þær tillögur sem fram eru komnar og miða að gjaldtöku eru til lækkunar. Maður hlýtur auðvitað að spyrja: Hafði viðskrn. ekki nægilegt samráð við aðila á markaðnum áður en það lagði fram frv.? Nú er það svo að í umræðu í nefndinni kom fram að stöku aðilar, t.d. þeir sem tengjast kauphöllum og mörkuðum, hafi ekki gert sér grein fyrir því að tilteknar bókhaldlegar breytingar hjá þeim hefðu í för með sér, að sögn, að gjaldtakan hækkaði um 50%. Það má kannski segja að í því tilviki sé ekki við viðskrn. að sakast heldur þessa aðila.

Maður getur auðvitað sagt sem svo og slett í góm: Kannski hefðu þeir bara átt að gjalda síns eigin aðgæsluleysis. Ég er þó reiðubúinn til að skoða það þegar mál koma með þessum hætti fyrir nefndina. Ég lagðist í sjálfu sér ekki gegn þessari tilteknu breytingu en fyrirvari minn er eigi að síður vegna þessara tillagna. Þær eru allar til lækkunar og ég taldi að ráðuneytið hefði fært boðleg rök fyrir fyrri tillögum sínum. Mér fundust rökin sem komu fyrir breytingarhugmyndum þeirra á eigin tillögum ekki jafn vel rökstuddar og hinar fyrri.

Er það virkilega þannig, herra forseti, að ráðuneytið tekur skoðunarlaust eða skoðunarlítið við þeim hugmyndum sem það fær frá stofnunum sínum, í þessu tilviki Fjármálaeftirlitinu, án þess að kafa ofan í þær sjálft? Ef svo er, eins og allt bendir til hérna, þá er ég ekki sáttur við það. Svona eiga menn ekki að vinna, herra forseti.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri, herra forseti. Ég eins og félagi minn, hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, styð þetta frv. með þeim fyrirvara sem ég hef hér gert grein fyrir.