Greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi

Þriðjudaginn 11. desember 2001, kl. 20:43:46 (3016)

2001-12-11 20:43:46# 127. lþ. 49.5 fundur 230. mál: #A greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi# (eftirlitsgjald) frv. 144/2001, GunnB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 127. lþ.

[20:43]

Gunnar Birgisson (andsvar):

Herra forseti. Af því að hv. þm. Össur Skarphéðinsson beindi til mín orðum þá vil ég taka eftirfarandi fram. Hann er trúr sannfæringu sinni um að það eigi látlaust að fjölga ríkisstarfsmönnum. Það er greinilega hans trú og hann hafði langt mál um það.

Hann spurði: Hefur starfsmönnum Kópavogsbæjar fækkað í Kópavogi? Nei, alls ekki. Ég vil benda hv. þm. á að árið 1990, þegar meiri hluti Framsfl. og Sjálfstfl. tók við stjórnartaumunum í Kópavogi, þá var íbúafjöldinn 16.300 en verður innan skamms, í febrúar, mars eða apríl 25.000. Því er ljóst að starfsmönnum bæjarins hefur ekki fækkað en það hefur verið haldið vel að rekstrinum. Komið hefur fram á undanförnum árum að rekstur án vaxta er einhvers staðar á bilinu frá 62--64% og með vöxtum upp á 67--69%, þar sem framlegð tvö er yfir 30% sem er mjög sjaldgæft meðal sveitarafélaga.

[20:45]

Í Kópavogi hefur verið haldið vel um reksturinn. Þar hefur starfsmönnum ekki verið fjölgað að óþörfu. Við erum með úrvals starfslið þar og við höfum gætt þess að hafa reksturinn eins hagkvæman og hægt er til að geta veitt Kópavogsbúum betri þjónustu í öllu tilliti, bæði í rekstri og aðbúnaði, þ.e. umgjörð um íþróttir, skóla, leikskóla og annað slíkt.

Ég held að sú stefna sem hefur verið rekin í Kópavogi sýni að lausn mála sé ekki, eins og virðist vera hjá öðrum með svipað form, að fjölga starfsmönnum sem mest.