Greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi

Þriðjudaginn 11. desember 2001, kl. 20:45:52 (3017)

2001-12-11 20:45:52# 127. lþ. 49.5 fundur 230. mál: #A greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi# (eftirlitsgjald) frv. 144/2001, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 127. lþ.

[20:45]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Gunnar Birgisson, mikill forustumaður í málefnum Kópavogsbúa, segir að í Kópavogi hafi Sjálfstfl. reynt að beita eins mikilli hagkvæmni í mannahaldi og hægt sé. Þessi orð hef ég heyrt nýlega, herra forseti. Ég heyrði þau hjá forustumönnum Fjármálaeftirlitsins. Þetta eru sömu orð og allir forustumenn, sem hafa á opinberum mannafla að skipa, hafa uppi þegar þeir eru inntir eftir því hvort starfsmönnum hafi verið að fækka eða fjölga.

Hv. þm. Gunnar Birgisson fellur í þá gryfju, sem hann liggur kylliflatur í núna, að koma hingað og átelja hið opinbera, ríkið, fyrir að fjölga starfsmönnum. Hv. þm. gerir hins vegar slíkt hið sama í Kópavogi, sem er glæsilegt bæjarfélag í örum vexti og þarf á auknum mannafla að halda.

Má ég, herra forseti, leyfa mér þann munað að draga samlíkingu við ríkisstofnunina Fjármálaeftirlitið. Það er ung stofnun í örum vexti sem reynir það sem hún getur til þess að sinna verkefnum sínum eins vel og hægt er. Forustumenn stofnunarinnar nota nákvæmlega sömu rök og hv. þm. Gunnar Birgisson notaði ég spurði hann út í mannahald í Kópavogi.

Hv. þm. Gunnar Birgisson þarf nú ekki að kvarta undan orðum þess sem hér stendur varðandi fjármálaframmistöðu hans í Kópavogi því eins og hv. þm. vaflaust rekur minni til þá ávann núverandi formaður Samfylkingarinnar sér nokkra óhelgi í Kópavogi fyrir nokkrum árum þegar hann skrifaði einmitt blaðagrein þar sem hann fór fulllofsamlegum orðum um frammistöðu hv. þm. í þessum efnum.