Greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi

Þriðjudaginn 11. desember 2001, kl. 20:48:00 (3018)

2001-12-11 20:48:00# 127. lþ. 49.5 fundur 230. mál: #A greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi# (eftirlitsgjald) frv. 144/2001, GunnB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 127. lþ.

[20:48]

Gunnar Birgisson (andsvar):

Herra forseti. Um þetta mál hefur svo sem verið rætt. Spurningin er um hvort það sé gefið og sjálfsagt að opinberum starfsmönnum fjölgi. Séu menn að bera það saman við bæjarfélagið Kópavog, sem er í örum vexti, þá er það náttúrlega ekki samanburðarhæft. Aukinn fjöldi íbúa kallar á aukinn fjölda starfsmanna.

Hér erum við að tala um eftirlitsiðnaðinn og auðvitað þarf mannaflinn að vera nægur til að eftirlitið sé í lagi. Það sem ég er að segja hér og halda fram er að menn megi ekki hafa það sem sjálfgefið að opinberum starfsmönnum fjölgi í svona eftirlitsstofnun.

Ég vona að þegar við sjáum þriggja ára áætlun stofnunarinnar á næsta ári þá telji forsvarsmenn Fjármálaeftirlitsins sig orðna nógu vel mannaða til að geta sinnt sínu hlutverki. Auðvitað þurfa þeir að ná ákveðinni stærð til að geta sinnt sínu hlutverki. Ég er bara að benda á þetta mál.

En svo ég komi að Kópavogi aftur þá vil ég þakka hv. þm. fyrir hlýleg skrif í minn garð í ákveðnu dagblaði á sínum tíma. En eins og ég sagði höfum við gætt okkar mjög í rekstri bæjarfélagsins og uppskorið það að geta sinnt okkar fólki, þ.e. íbúunum, með betri þjónustu í flestu tilliti.