Umræða um frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum

Miðvikudaginn 12. desember 2001, kl. 10:13:02 (3022)

2001-12-12 10:13:02# 127. lþ. 50.93 fundur 228#B umræða um frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum# (um fundarstjórn), BH
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 127. lþ.

[10:13]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Ég vil mótmæla því sem hér er að gerast. Hér er tekið á dagskrá mál sem talað var um, í gær á fundi með hæstv. forseta, að yrði ekki tekið til umræðu fyrr en seinna í dag vegna þess að fyrir lá að nál. minni hluta yrði ekki tilbúið fyrr en um hádegi.

Herra forseti. Hér stóð til, að minni hyggju og þeirra sem voru á fundi með hæstv. forseta í gær, að taka fyrir málefni smábáta og hugsanlega einhver fleiri smámál sem fyrir lægju. En það lá alltaf ljóst fyrir, að mínu viti og annarra sem voru á fundi með hæstv. forseta, að þetta mál yrði ekki tekið strax fyrir á dagskrá. Ég vil mótmæla þessum vinnubrögðum, herra forseti. Ég gerði athugasemd við það í upphafi fundar þegar mér var ljóst hvað var að gerast. Ég gerði forseta ljóst að nál. 1. minni hluta lægi ekki fyrir. Ég tel fullkomlega óeðlilegt, herra forseti, að taka þetta mál fyrir þegar þannig stendur á.

Herra forseti. Það skyldi þó ekki vera ástæðan fyrir því að þessi vinnubrögð eru viðhöfð að hv. frsm. nefndarinnar er á leið til útlanda strax eftir hádegið? Ég vil mótmæla því, herra forseti, að það ráði því hvernig þingstörfum er háttað. Núna þurfum við að fara fram á það við hæstv. forseta, vegna málsmeðferðar hans, að málinu verði frestað þar til nál. minni hluta liggur fyrir, sem verður um hádegi í fyrsta lagi. Væntanlega verður þá hv. frsm. farinn til útlanda. Herra forseti. Hvers konar málsmeðferð er þetta?

(Forseti (HBl): Hv. 1. þm. Norðurl. v. er ekki til umræðu hér heldur kvaddi hv. þm. sér hljóðs um fundarstjórn forseta og skal halda sig við það.)

Ég held mig við það, herra forseti. Ég er að mótmæla því að hæstv. forseti taki fyrir mál á dagskrá þar sem stefnir í að umræða muni fara fram án þess að hv. frsm. nefndarálits meiri hluta nefndarinnar verði viðstaddur. Ég vil mótmæla því, herra forseti. Ég tel að með þessu sé verið að gera umræðuna mjög erfiða á hinu háa Alþingi.