Umræða um frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum

Miðvikudaginn 12. desember 2001, kl. 10:19:29 (3026)

2001-12-12 10:19:29# 127. lþ. 50.93 fundur 228#B umræða um frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum# (um fundarstjórn), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 127. lþ.

[10:19]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Vinnubrögðin á þessari hv. samkomu eru fyrir neðan allar hellur og vart bjóðandi þingmönnum að taka þátt í þeim með þeim hætti sem hæstv. forseti stýrir þessari virðulegu samkomu.

Ég vil minna á að þetta mál var tekið til 1. umr. á laugardaginn. Nefndin afgreiddi málið á mánudagskvöld og það er auðvitað óeðlilega hröð afgreiðsla á svo stóru og miklu máli. Í gær vorum við í efh.- og viðskn. mestallan daginn að ræða mál sem voru komin á dagskrá, m.a. stórt mál eins og skattamálin og þá var og rætt um hvernig fyrirkomulag yrði í dag á þingstörfunum. Þau voru með þeim hætti, þegar ég fór héðan í gærkvöldi, að þá var upplýst að þetta mál yrði ekki tekið fyrir fyrr en í fyrsta lagi eftir hádegi.

Ég gerði starfsmönnum þingsins grein fyrir því að ég mundi skila nefndaráliti mínu fyrir hádegi og við það verður auðvitað staðið. En hæstv. forseti skuldar þinginu skýringu á því af hverju málið er tekið á dagskrá sem fyrsta mál þrátt fyrir að þingmenn sem ætla að taka þátt í umræðu um þetta mál hafi verið upplýstir um allt annað í gær, þ.e. að málið yrði tekið fyrir eftir hádegi.

Auðvitað er ekki boðlegt að á sama tíma og málið er tekið til 2. umr. skuli formaður og varaformaður efh.- og viðskn. vera á förum til útlanda og ekki geta tekið þátt í þessari umræðu. Ég spyr, herra forseti: Finnst hæstv. forseta það vera boðlegt í þingstörfunum að haga málum með þessum hætti? Það er fyrir neðan allt, herra forseti, að okkur í minni hlutanum sé boðið upp á það án nokkurs fyrirvara, miðað við þær upplýsingar sem við fengum í gær, að málið sé tekið fyrir sem fyrsta mál á dagskrá. Þessi umræða er slitin úr samhengi með þessum hætti og þetta er ekki boðlegt þinginu.

Herra forseti. Ég fordæmi þessi vinnubrögð sem mér finnst ekki boðleg og ég segi enn og aftur: Hæstv. forseti skuldar þinginu skýringu á því hvernig hann hefur stjórnað þinginu í dag.