Umræða um frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum

Miðvikudaginn 12. desember 2001, kl. 10:32:13 (3034)

2001-12-12 10:32:13# 127. lþ. 50.93 fundur 228#B umræða um frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum# (um fundarstjórn), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 127. lþ.

[10:32]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Það eru 14 mál á dagskrá þessa fundar í dag. Það mál sem hér er deilt um að hafi verið tekið á dagskrá er 12. málið á dagskránni. Það eru 11 mál á undan. Ég vil spyrja hæstv. forseta: Hvað breyttist eftir að þessi dagskrá var prentuð? Hvers vegna er ekki gengið á dagskrána eins og hún er sett upp? Hvers vegna er svona óvænt vikið frá því sem um var rætt í gær? Mér finnst að hæstv. forseti verði að svara þinginu því þegar svo er í pottinn búið að hæstv. forseti víkur frá dagskránni með því að taka fyrir 12. mál af 14 öllum að óvörum. Hæstv. forseti hefur ekki gefið þinginu skýringu á því af hverju hann breytti svona út frá dagskránni og út frá því sem frá var gengið í gær.

Það er alveg nauðsynlegt þegar svona mikill hraði er á öllu að skipulag sé í vinnubrögðum þingsins og þar mæðir auðvitað á forseta að hann stjórni þinginu á þann hátt að hér geti mál gengið eðlilega fram. En svo er alls ekki og ég segi að sökin á því sé hæstv. forseta. Og hann hefur ekki gefið neina skýringu á því af hverju hann breytti út frá dagskránni frá því að hún var prentuð.

Ég geri ekki athugasemdir við það frekar en aðrir að þingmenn sinni skyldustörfum sínum á erlendum vettvangi. En það verður þá að haga því þannig, herra forseti, og þar mæðir líka á hæstv. forseta, að það raski ekki þingstörfunum óeðlilega eins og hefur gerst á þessum morgni. Ég fordæmi þessi vinnubrögð. Þau eru ekki til fyrirmyndar. Þau eru þinginu til skammar. Ég bið, herra forseti, um skýringu á því af hverju vinnubrögðum er hagað svo á þessum morgni.

Ég ítreka að efh.- og viðskn. var með mál sín á dagskrá mestallan daginn í gær þar sem maður þurfti að vera viðstaddur umræðu á sama tíma og verið var að ganga frá nefndaráliti, herra forseti. Því er ekkert óeðlilegt að aðeins hafi dregist að skila inn þessu nefndaráliti eins og hæstv. forseti hafði vitneskju um í gær. Ég kalla því enn eftir skýringu frá hæstv. forseta. Hann skuldar þinginu skýringu.