Samningar um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum 2002

Miðvikudaginn 12. desember 2001, kl. 10:53:07 (3043)

2001-12-12 10:53:07# 127. lþ. 50.11 fundur 327. mál: #A samningar um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum 2002# þál., ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 127. lþ.

[10:53]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Það er kannski ástæðulaust að lengja mjög umræðuna um þetta mál. Ég vildi bara halda því til haga sem ég sagði þegar umræðan um þáltill. um staðfestingu á samningnum var til umræðu. Í raun kom fram hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni það sem ég lagði sérstaka áherslu á þá.

Ég tel mjög mikilvægt að við náum samningi um þennan stofn. Það væri mjög góðra gjalda vert. Ég geri mér grein fyrir því að svona samningar eru erfiðir. Það er erfitt að ná því fram sem við viljum. Það kom fram í máli mínu um þetta mál fyrir skömmu að staða Norðmanna, með 94.200 tonna heimild til veiða inn í íslenskri lögsögu, væri töluvert góð. Það eru náttúrlega mjög verðmætar heimildir ef síldin færi að ganga inn í íslenska lögsögu eins og við höfum vonast til. Það er alveg ljóst. Þess vegna viljum við að menn reyni að styrkja stöðu sína í þessum samningum, þ.e. gagnkvæmum veiðiréttarsamningum.

Það kom fram í umræðunni um daginn að íslenskir útvegsmenn lögðu svo sem enga sérstaka áherslu á að við næðum samningum um miklar veiðiheimildir í norskri lögsögu á sínum tíma. Eins og fram kom í máli hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar þá gerir maður sér grein fyrir því hve erfitt er að hnika samningum sem búið er að setja í einhvern farveg. En rætist það, sem við vonum allir Íslendingar, að síldin fari að ganga inn í lögsöguna þá verður að viðurkenna og horfast í augu við að veiðiréttur Norðmanna, upp á rúm 90 þúsund tonn, getur orðið gríðarlega verðmætur. Að öllum líkindum, ef síldin tekur upp fyrra munstur, þá verður öllu fýsilegra að veiða hana hér innan lögsögunnar en annars staðar á hafsvæðinu því að þá er hún feitari og stærri.

Virðulegi forseti. Það eru bara þessi atriði sem ég vildi halda til haga. Það eru einkum þessir fyrirvarar sem við höfum í sambandi við þennan samning. Maður fagnar því hins vegar í sjálfu sér að náðst hafi samstaða um hvernig farið skuli með þennan stofn og náttúrlega er grundvallaratriði að allir málsaðilar komi að málinu og séu sammála um hvaða aðferðir skuli notaðar við stjórn veiða úr þessum stofni.