Þróunarsjóður sjávarútvegsins

Miðvikudaginn 12. desember 2001, kl. 11:23:24 (3054)

2001-12-12 11:23:24# 127. lþ. 50.9 fundur 289. mál: #A Þróunarsjóður sjávarútvegsins# (hækkun gjalds) frv. 130/2001, GAK
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 127. lþ.

[11:23]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa um þetta langt mál en það hefði hins vegar verið æskilegra að við hefðum haft til hliðsjónar upplýsingar um Þróunarsjóð sjávarútvegsins sem ég var búinn að óska eftir með fyrirspurn. Ég óskaði eftir skriflegu svari um stöðu hans, afskriftir og innkomu, vegna þess að Þróunarsjóðnum hefur verið breytt mikið í gegnum árin, atvinnutryggingardeildin var sett inn í Þróunarsjóðinn á sínum tíma. Það kom nefnilega í ljós í svari við spurningum sem ég beindi til Þróunarsjóðs sjávarútvegsins fyrir tveimur árum, þegar ég lagði fram litla tillögu um varðveislu gamalla skipa og ætlaðist til þess að ákveðnir peningar rynnu úr Þróunarsjóðnum til að styrkja varðveislu skipa sem hefðu sögulegt gildi, að miklir peningar hefðu komið til baka inn í Þróunarsjóðinn af áður afskrifuðum skuldum. Það voru ekki einhverjar fáar milljónir, heldur skipti það milljörðum. Mig grunar að þessi þróun hafi haldið áfram, að þeir peningar sem áður töldust afskrifaðir og tapaðir --- sérstaklega fjármunir sem lánaðir höfðu verið gegnum atvinnutryggingardeildina. Menn héldu kannski að það fé væri afskrifað og hefði tapast en staðreyndin er hins vegar sú að stór hluti þeirra fjármuna hefur komið inn í Þróunarsjóðinn, m.a. þegar fyrirtæki hafa verið seld eða fyrirtæki í sjávarútvegi sameinuð. Þarna var um verulegar fjárhæðir að ræða.

Ég tel að gott hefði verið að við hefðum séð stöðu Þróunarsjóðsins og hvernig eignir hans hafa breyst á undanförnum árum, hvað hefur komið til baka af afskriftareikningi, af fjármunum sem áður töldust tapaðir. Við getum auðvitað tekið þessi mál upp þegar þessar upplýsingar liggja fyrir í sérstakri umræðu eða þá að þingmenn skoði í sameiningu breytingar á Þróunarsjóðnum.

Almennt hef ég það um þessa gjaldtöku að segja að hér er verið að hækka gjöld til að standa við ákveðnar skuldbindingar. Segja má að að hluta sé þetta nokkuð sjálfvirk hækkun en ég hef þennan fyrirvara. Ég hefði viljað sjá þetta mál betur upplýst áður en það er afgreitt og að því snýr fyrirvari minn.