Innflutningur dýra

Miðvikudaginn 12. desember 2001, kl. 13:01:12 (3055)

2001-12-12 13:01:12# 127. lþ. 50.13 fundur 281. mál: #A innflutningur dýra# (heimild til gjaldtöku) frv. 142/2001, Frsm. DrH (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 127. lþ.

[13:01]

Frsm. (Drífa Hjartardóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um innflutning dýra, nr. 54/1990, með síðari breytingum, frá landbn. Það er algjört samkomulag í nefndinni um að leggja þetta frv. fram. 1. gr. hljóðar svo:

,,Við 7. gr. laganna bætist ný málsgrein er orðast svo:

Eigendur dýra og erfðaefnis greiða gjöld fyrir þjónustu sóttvarna- og einangrunarstöðva samkvæmt gjaldskrá er landbúnaðarráðherra setur. Við ákvörðun um gjaldskrá skal við það miðað að tekjur sóttvarna- og einangrunarstöðvar standi undir útgjöldum hennar, svo sem almennum rekstrarkostnaði, launakostnaði, leigugjöldum, fóðurkostnaði, lyfjakostnaði og dýralæknaþjónustu, kostnaði við sýnatökur og rannsóknir og opinberum gjöldum.``

Þetta frv. er lagt fram vegna þess að við frágang á frumvarpi til laga um breytingu á lögum um innflutning dýra sem lagt var fram á 125. löggjafarþingi og afgreitt sem lög frá Alþingi í desember 2000, sbr. lög nr. 175/2000, urðu þau mistök að niður féll 2. mgr. 7. gr. laganna sem varðar heimild til gjaldtöku vegna þjónustu sem eigendur dýra og erfðaefnis greiða fyrir þjónustu sóttvarna- og einangrunarstöðva. Til þess að tryggja rekstrargrundvöll þeirra er óhjákvæmilegt að ótvíræð heimild sé til gjaldtöku. Slíkri heimild var með sérstökum lögum bætt inn í lögin um innflutning dýra árið 1996, sbr. lög nr. 40/1996, og er með frumvarpi þessu lagt til að ákvæðum þeim sem niður féllu við lagabreytinguna 2000 verði á ný bætt inn í lögin.