Lífræn landbúnaðarframleiðsla

Miðvikudaginn 12. desember 2001, kl. 13:03:31 (3056)

2001-12-12 13:03:31# 127. lþ. 50.14 fundur 313. mál: #A lífræn landbúnaðarframleiðsla# (EES-reglur) frv. 150/2001, Frsm. DrH (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 127. lþ.

[13:03]

Frsm. (Drífa Hjartardóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga frá landbn. um um breytingar á lögum nr. 162/1994, um lífræna landbúnaðarframleiðslu.

Það er eins með þetta mál og hið fyrra að algjört samkomulag er í nefndinni um að leggja fram þetta frv.

1. gr. frv. hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,6. gr. laganna orðast svo:

Landbúnaðarráðherra setur reglugerð þar sem tilgreindar eru lágmarkskröfur sem gerðar eru til vottaðra lífrænna framleiðsluhátta við íslenskar aðstæður í samræmi við grunnreglur Alþjóðasamtaka lífrænna landbúnaðarhreyfinga (IFOAM) og skuldbindingar Íslands skv. I. og II. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.``

2. gr. frv. hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,7. gr. laganna orðast svo:

Hver sá sem brýtur gegn ákvæðum laga þessara eða reglna settra samkvæmt þeim skal sæta sektum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum. Sektir renna í ríkissjóð.

Með mál samkvæmt þessari grein skal farið að hætti opinberra mála, sbr. lög um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991.``

Við gildistöku laganna um lífræna landbúnaðarframleiðslu, nr. 162/1994, var sett reglugerð á grundvelli þeirra, reglugerð um lífræna landbúnaðarframleiðslu, nr. 219/1995. Byggðist sú reglugerð á gerðum Evrópusambandsins um lífræna framleiðslu sem þá höfðu tekið gildi og sem Íslendingar höfðu, með samþykkt EES-samningsins, skuldbundið sig til að yfirtaka. Einnig byggðist sú reglugerð á stöðlum IFOAM, Alþjóðasamtaka lífrænna landbúnaðarhreyfinga, fyrir lífræna framleiðslu. Frá gildistöku þessara ákvæða hér á landi hefur orðið mikil þróun á þessum vettvangi hjá Evrópusambandinu. Með samþykkt EES-samningsins hafa Íslendingar sem fyrr segir skuldbundið sig til þess að yfirtaka gerðir ESB á þessu sviði. Í landbúnaðarráðuneytinu er unnið að því að endurútgefa og yfirtaka þessar gerðir í heild og laga þær að íslenskum aðstæðum eftir því sem svigrúm er til. Við þá vinnu hefur komið í ljós að í lögunum um lífræna landbúnaðarframleiðslu er ekki að finna ótvíræðar heimildir til yfirtöku sumra þessara ákvæða, einkum ákvæða sem snerta viðurlög. Með frumvarpi þessu er því lagt til að ótvíræð ákvæði verði lögfest hvað það varðar. Enn fremur er lagt til að heimild ráðherra til setningar reglugerðar verði aðlöguð þeirri öru þróun sem orðið hefur á þessu sviði innan ESB, samanber skuldbindingar Íslands samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.