Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 12. desember 2001, kl. 14:09:51 (3072)

2001-12-12 14:09:51# 127. lþ. 50.8 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv. 129/2001, GuðjG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 127. lþ.

[14:09]

Guðjón Guðmundsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. fór hér nokkrum orðum um byggðakvótann og hvernig Byggðastofnun hefði staðið að úthlutun hans. Hann sagði að ekki væru nú allir sáttir við þá úthlutun, sem er auðvitað alveg hárrétt hjá hv. þm. Auðvitað held ég að kvótanum verði aldrei úthlutað þannig að allir verði sáttir. Byggðastofnun gerði þetta þannig að þróunarsviði stofnunarinnar var falið að búa til reglur sem stuðst yrði við þannig að þetta yrðu ekki neinar geðþóttaákvarðanir stjórnar. Þar var tekið tillit til fjölmargra þátta, fækkunar fólks á viðkomandi stöðum, hve kvótinn hefði minnkað og hversu fiskvinnslan hefði dregist saman, hlutfall fólks sem vinnur við sjávarútveg o.s.frv.

Það er ekki hægt að miða bara við kvótastöðuna eina. Hún segir auðvitað ekki allt því það getur verið verulegur kvóti í byggðarlagi þó ekkert af þeim fiski komi til vinnslu þar. Þannig var stuðst við ýmsa þætti og þeir látnir vega misjafnlega þungt í reiknireglunni. Út frá því var kvótanum úthlutað. En auðvitað verður aldrei sátt um þetta og alltaf endalaust hægt að deila um með hvaða hætti eigi að gera þetta.

Það sem kallaði mig nú í andsvar var hins vegar að hv. þm. sagði eitthvað á þá leið að Samfylkingin væri óánægð með að byggðakvótanum væri úthlutað til margra ára í einu. Það er ekki alls kostar rétt vegna þess að þetta er endurskoðað árlega. Það er úthlutað árlega. Að vísu var miðað við að að öllu óbreyttu fengju menn þetta til nokkurra ára en úthlutunin er endurskoðuð árlega. Síðast á fundi Byggðastofnunar í morgun var úthlutað að nýju í tveimur byggðarlögum í landinu. Ég vildi láta það koma fram.

Ég hef hins vegar frá því fyrst var farið að ræða um byggðakvótann á Alþingi haft miklar efasemdir um hann og varaði við honum þegar honum var komið hér á. Ég taldi að hann yrði mjög erfiður í framkvæmd. Það hefur komið á daginn. Það er auðvitað erfitt að úthluta svona. Þetta eru verðmæti sem verða alltaf mjög umdeilanleg. Ég hafði miklar efasemdir og þær efasemdir hafa sannast tel ég í meðferð þessa máls.