Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 12. desember 2001, kl. 14:12:03 (3073)

2001-12-12 14:12:03# 127. lþ. 50.8 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv. 129/2001, Frsm. 1. minni hluta JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 127. lþ.

[14:12]

Frsm. 1. minni hluta sjútvn. (Jóhann Ársælsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Svör mín við þessu eru einfaldlega þau að við í Samfylkingunni höfum kappkostað að setja fram reglur sem tryggi jafnræði varðandi veiðiréttindi og öll réttindi sem hið opinbera útdeilir til borgaranna með einhverjum hætti. Þessi handstýrða úthlutun sem hv. þm. var hér að lýsa er gott dæmi um það þegar stjórnmálamenn lenda í að deila og drottna og þurfa að velja fáa útvalda til að fá þau gæði sem hið opinbera hefur með höndum. Það getur auðvitað aldrei valdið öðru en deilum og erfiðleikum.

Hv. þm. Einar Guðfinnsson var hér áðan einmitt að lýsa hremmingum meiri hlutans við að reyna að finna út hvaða viðmiðun ætti nú að nota til að velja þá út sem ættu að fá þessar viðbætur í aflaheimildum sem felast í frv. sem hér er verið að ræða. Byggðastofnun hefur þurft að berjast við að reyna að finna eitthvert réttlæti, bæði gagnvart byggðarlögum og aðilum sem eiga að fá réttindin í hendurnar, til að framfylgja því sem Alþingi hefur tekið ákvörðun um í sambandi við byggðakvóta. Auðvitað verður þetta endalaus vandi.

Ég held að það muni ekki fást endanleg niðurstaða í málin þó menn taki upp almenna úthlutun. Það yrði þó allavega eitthvað sem hægt væri að búa við. Framtíðin getur aldrei orðið í neinum friði með hinum endalausu handstýrðu úthlutunum, þ.e. að Alþingi haldi áfram að velja útvalda til að fá í hendur gæði sem hið opinbera hefur til þess að úthluta.