Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 12. desember 2001, kl. 18:01:17 (3080)

2001-12-12 18:01:17# 127. lþ. 51.2 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv. 129/2001, JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 127. lþ.

[18:01]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Það sem vakti athygli mína í ágætri ræðu hv. þm. Hjálmars Árnasonar var í fyrsta lagi það að fyrir liggja brtt. við tillögu meiri hlutans sem hann taldi sig í megindráttum vel geta stutt. En vegna þess að ekki væri meiri hluti í þinginu fyrir því að standa að þeim breytingum, þá gæti hann það ekki. Ef svo er háttað almennt um mál að hv. þm. standa ekki við sannfæringu sína og skoðun á málum sem eru hér á ferðinni, þá næst aldrei fram hinn raunverulegi vilji þingsins til breytinga. Ég verð því að spyrja hv. þm.: Finnst honum það í rauninni vera hin þingræðislega afstaða í málinu að koma þannig fram? Væri ekki miklu réttara að segja bara: ,,Ég styð tillöguna``? Því að í máli hans kom einmitt fram að með þeim brtt. sem liggja fyrir mundi frv. í heild sinni verða betra.

Í öðru lagi varðandi þá endurskoðun sem hv. þm. var að heita að yrði að vera búið að ljúka fyrir 1. febrúar á næsta ári. Hefur hv. þm. velt því fyrir sér hvernig aðrar dagsetningar á sl. tveim eða þrem árum hafa staðist varðandi tillöguflutning og ákvarðanatöku sem hefði átt að liggja fyrir á hinu háa Alþingi gagnvart fiskveiðum?