Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 12. desember 2001, kl. 18:08:05 (3084)

2001-12-12 18:08:05# 127. lþ. 51.2 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv. 129/2001, Frsm. 1. minni hluta JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 127. lþ.

[18:08]

Frsm. 1. minni hluta sjútvn. (Jóhann Ársælsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Hjálmar Árnason kvað mjög fast að orði áðan og sama gerir reyndar meiri hluti nefndarinnar í nál. sínu að fram komi og muni örugglega koma fram frv. til endurskoðunar á þeim atriðum hvað varðar veiðar smábáta sem hv. þm. fór yfir. Það frv. muni koma fram ef heildarendurskoðunarfrv. verði ekki lagt fyrir þingið. Mig langar að spyrja hv. þm. hvort hann telji öruggt, úr því að hann leggur svona mikla áherslu á að sú endurskoðun fari fram á þeim atriðum sem varða veiðar smábátanna svo fljótt sem auðið er, að þó að frv. sjútvrh. um heildarendurskoðun á lögunum um stjórn fiskveiða komi fram á þessum tíma, þá sé öruggt að umfjöllun um það ljúki á næsta vori þannig að þessum bráðaaðgerðum fyrir smábátana muni þá örugglega ljúka fyrir vorið og hvort meiri hlutinn og hv. þm. telji þetta svo öruggt að það megi þá tengja það saman.

Ég nefni þetta vegna þess að hv. þm. lagði slíka ofuráherslu á að þessi ákvæði yrðu endurskoðuð og að þetta frv. kæmi fram fyrir 1. febrúar og það gerir meiri hluti nefndarinnar líka.