Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 12. desember 2001, kl. 18:15:16 (3088)

2001-12-12 18:15:16# 127. lþ. 51.2 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv. 129/2001, SI
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 127. lþ.

[18:15]

Sigríður Ingvarsdóttir:

Hæstv. forseti. Í því frv. sem hér er til umræðu má margt gott finna en ég vara við því að stöðugt séu færðar meiri aflaheimildir til krókaaflamarksbáta á kostnað þeirra sem eru í aflamarkinu. Umframveiði krókabátanna hefur hingað til bitnað á aflamarksskipunum og ekki síður smábátum í aflamarki. Dæmin hafa sýnt og sannað að gengdarlaus ásókn hefur verið í stofna utan kvóta krókabátanna og veiðin margföld miðað við það sem gert hefur verið ráð fyrir. Má þar nefna sem dæmi að ýsuveiði krókabáta undanfarin ár hefur verið ríflega 21 þús. tonn umfram það sem miðað var við. Umframveiði krókabáta á þorski frá 1984 hefur numið tæpum 290 þús. tonnum. Umframveiði í steinbít síðustu fimm fiskveiðiár eru á fimmta þúsund tonn eða um það bil 110% umfram þá hlutdeild sem ráð var fyrir gert. Sé dæmi tekið af síðasta ári veiddu krókabátarnir 9.771 tonn af steinbít umfram þau 3 þús. tonn sem þeim voru ætluð og jafngildir það 225% umframveiði.

Að sjálfsögðu hefur þessi mikla umframveiði smábátanna gífurleg áhrif á aflamarksskipin. Þau hafa misst um 40% af veiðiheimildum sínum frá árinu 1984. Neikvæðu áhrifin eru eðlilega þau að umframaflinn sem sóttur er á kostnað aflamarksskipanna eykur að sjálfsögðu rekstrarvanda sjávarútvegsfyrirtækja um land allt.

Árið 1984, þegar kvótakerfið var sett á, var hlutdeild smábáta 3,3% af þorksveiðiheimildum. Hefði verið tekið mið af veiðireynslu þeirra hefðu þeir ekki fengið úthlutað nema 1,97%. En vegna þrýstings og þess að menn töldu að ekki hefði allur afli verið skráður var smábátunum úthlutað 3,3% þorskveiðiheimildanna. Undanfarin ár hafa þeir síðan fengið úthlutað um 10--20% af öllum þorskveiðiheimildum.

Á síðasta fiskveiðiári var hlutdeild krókabáta í þorskafla 17,553% samkvæmt upplýsingum frá Fiskistofu. Aukning afla krókabáta af öðrum tegundum en þorski hefur verið hlutfallslega miklu meiri á þessum tíma og aflahlutdeild aflamarksbáta hefur á sama tíma rýrnað í sama hlutfalli og nemur aukningunni hjá krókabátum. Ef steinbítskvóti hefði verið settur á krókamarksbátana á sama tíma og aflamarksbátana, þ.e. árið 1996, þá hefði úthlutunin til þeirra verið 17--18%. En þeir fengu að vera frjálsir þar til nú. Á viðmiðunarárunum er steinbítur var settur í kvóta hjá aflamarksskipunum var afli þeirra rúmlega 11 þús. tonn en steinbítsafli krókaaflamarksskipanna 2.436 tonn. Því hefðu þeir átt að fá 17,88% af steinbítskvóta í sinn hlut en fá nú 38,39%. Það er bara ein kaka til skiptanna og um leið og einum hópi hagsmunaaðila er úthlutuð stærri sneið skerðist að sjálfsögðu hlutur hinna.

Sé litið á dagabátana þá eru núna 219 dagabátar sem mega veiða 21 sólarhring á ári. Þetta voru 23 sólarhringar en hefur verið skert í 21 sólarhring. Í fyrra kom í ljós að að meðaltali veiddust 2 tonn á bát á hverjum þessara sólarhringa. 1.200 tonn voru tekin frá í reglugerðinni vegna þessara veiða en þegar upp var staðið reyndist afli þeirra vera 8.000 tonn. Aflinn jókst um 25% frá árinu áður.

Veiðireynslan hjá þeim bátum sem völdu að stunda veiðar í sóknardagakerfi, þessu 23 daga kerfi, var metin til 1.371 tonna af þorski og það áttu þeir að fá í þorskaflahámark en umframveiðin frá 1998--2001 var 11.954 tonn. Til að átta sig á þessari þróun má geta þess að á fiskveiðiárinu 1998/1999 var meðalþorskaflinn hjá þessum bátum 25,5%, á fiskveiðiárinu 1999--2000 var meðalþorskaflinn hjá þessum bátum 31% og hafði aukist um 23,5% frá árinu þar áður. Á fiskveiðiárinu 2000/2001 var meðalþorskaflinn hjá þessum bátum 36 tonn og hafði aukist um 14,28%. Inn í þetta kerfi eru að koma stærri og betur útbúnir bátar sem geta veitt töluvert meira en þeir bátar sem byrjuðu í þessu dagakerfi 1998/1999.

Brottkast er veikleiki í kvótakerfinu en hefur ætíð tengst fiskveiðum og á sér mun lengri sögu en kvótakerfið. Tekið er á þeim vanda að hluta hér með 5% reglunni sem lögð er til í þessu frv., þ.e. að allt að 5% af heildarafla veiðiskips reiknist ekki til kvóta. Með reglunni er útgerðaraðilum gert kleift að koma með þann meðafla að landi sem e.t.v. er ekki til nægjanlegt aflamark fyrir í viðkomandi tegund og að öllu jöfnu hefði verið freistandi að henda fyrir borð.

Einnig var tekið á brottkastsmálum með öðru frv. sem nýlega var rætt á þingi þar sem útgerðum var gert skylt að koma með allan afla að landi hvort sem um væri að ræða sýktan, selbitinn eða skemmdan fisk en honum er landað sér og reiknast ekki til aflamarks.

Talað hefur verið um þá ósanngirni sem átt hefur sér stað gagnvart smábátunum að kvótasetja tegundir sem hingað til hafa verið frjálsar, en hæstv. forseti: Hvaða sanngirni er að leyfa sumum sjómönnum að veiða stöðugt meira magn á kostnað annarra sjómanna? Það er ekki með nokkurri sanngirni hægt að segja að kerfið hafi verið krókaaflamarksbátunum ósanngjarnt í samanburði við aðra. Ég vil veg smábátaútgerðar sem mestan og bestan en ekki á kostnað annarra útgerðaraðila sem tilheyra öðru kerfi. Ég vil veg sjávarútvegsins í heild sem mestan og bestan og að stærri jafnt sem smærri útgerðir megi eflast og dafna um ókomna tíð.