Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 12. desember 2001, kl. 18:23:47 (3089)

2001-12-12 18:23:47# 127. lþ. 51.2 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv. 129/2001, GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 127. lþ.

[18:23]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Út af því sem fram kom í ræðu hv. þm. þá vil ég láta þess getið að steinbíturinn hefur orðið þeirrar gæfu aðnjótandi að fara einu sinni inn í kvótakerfið. Það var árið 1984. Hann fékk að fara út úr því aftur og var utan kvóta fram til ársins 1996. Það fóru sem sagt fram frjálsar veiðar á honum frá árinu 1985/1996. Hvað skyldi hafa gerst á þessu tímabili? Gerðist eitthvað stórkostlegt? Var verið að rústa stofninum eða fóru fram óeðlilegar veiðar á þessum stofni? Nei, alls ekki. Aflinn var að meðaltali 13--16 þús. tonn, hékk á því bili. Samkvæmt nánari útreikningi var hann rúm 13 þús. tonn yfir allt tímabilið.

Þegar steinbíturinn kom inn í kvótann fiskveiðiárið 1996/1997 var það svo að fyrsta árið sem hann var í kvóta, 1996/1997, kláraði aflamarksútgerðin ekki kvótann sinn. Hún notaði 462 tonn af steinbít til að búa til aðrar fisktegundir. Hið öfluga aflamarkskerfi kláraði ekki kvótann sinn. Þá veiddust ekki 1680 tonn 1997/1998, tæplega 3.000 tonn 1998/1999 og tæplega 2 þús. tonn 1999/2000, sem er síðasta árið sem ég hef upplýsingar um. Ég held að á síðasta fiskveiðiári hafi aflamarksflotinn einnig skilið eftir óveiddar heimildir í steinbít. Aflamarksflotinn hefur alltaf staðið uppi með að hafa ekki klárað heimildir sínar í steinbít. Það er von að það sé frá einhverjum tekið sem ekki veiðist.