Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 12. desember 2001, kl. 18:28:57 (3092)

2001-12-12 18:28:57# 127. lþ. 51.2 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv. 129/2001, SI (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 127. lþ.

[18:28]

Sigríður Ingvarsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Afkoma byggðanna fer einnig eftir því hvernig aflamarksskipum gengur. Það fer ekki eingöngu eftir krókaaflamarksbátunum hvort byggð dafnar hér og þar um landið. Auðvitað hafa útgerðir þurft að hagræða. Hluti af hagræðingunni hefur verið að skipta upp í verðmeiri tegundir sem seljast vel og útgerðin hefur hagrætt gífurlega og það kemur öllum til góða.

Í sóknarkerfum felst oft gífurleg sóun verðmæta, þegar eingöngu er verið að hugsa um magnið en ekki gæðin. Útgerðin tæknivæðist í þeim tilgangi að afkasta sem mest og fá sem mestan afla á þeim dögum sem veiða má (GAK: Þetta er nú staðlaður texti.) og sóknarmarkið leiðir almennt til offjárfestinga í greininni.

Þá er einnig erfiðara að samhæfa veiðar og vinnslu í sóknardagakerfi. Það er alveg hægt að taka sem dæmi lúðuna í Bandaríkjunum sem var gefin frjáls að því leyti að það mátti sækja í hana með ákveðnum sóknardögum. Það fór svo að skipin tæknivæddust það mikið að nú er þetta komið niður í einn dag sem veiða má á ári. Hvaða skynsemi er í því?