Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 12. desember 2001, kl. 19:09:24 (3095)

2001-12-12 19:09:24# 127. lþ. 51.2 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv. 129/2001, sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 127. lþ.

[19:09]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (andsvar):

Herra forseti. Til mín var beint einni spurningu um afstöðu mína til umfjöllun í nál. um endurskoðun vegna dagabáta. Hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir lagði þetta upp sem einhvers konar hótun nefndarinnar í minn garð.

Ég hef lýst því yfir opinberlega að ég telji rétt að endurskoða þau lagaákvæði sem um þennan bátaflokk gilda. Ég hef reyndar gert það oftar en einu sinni. Ég hef átt um það viðræður við Landssamband smábátaeigenda þó ekki hafi náðst saman um þær hugmyndir sem ég hafði og þeir hafa. Það er kannski eðlilegt þar sem stærri mál voru til umræðu á þeim tíma. Stundum er erfitt að reyna að leysa fleiri en eitt mál í einu, sérstaklega þegar mikið ber á milli. Þess vegna varð raunin sú af minni hálfu að fresta því að reyna að ná niðurstöðu um dagabátana þangað til að búið væri að afgreiða þau mál sem upp komu við upptöku krókaaflamarksins við síðustu fiskveiðiáramót. Ég sé þess vegna enga hótun í umfjöllun meiri hluta nefndarinnar. Þegar meiri hluti nefndar talar um að beita sér fyrir að flutt verði frv. þá leyfi ég mér að draga þá ályktun að þar sé um að ræða stjfrv. og ég geri ráð fyrir því að það geti séð dagsins ljós í kringum þann tímapunkt sem nefndur er í meirihlutaálitinu.