Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 12. desember 2001, kl. 19:17:21 (3099)

2001-12-12 19:17:21# 127. lþ. 51.2 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv. 129/2001, KVM
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 127. lþ.

[19:17]

Karl V. Matthíasson:

Herra forseti. Enn erum við að ræða frv. til laga um breytingu á lögum nr. 38 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum. Mörg orð hafa fallið í þessum sal og alls staðar um landið um lögin nr. 38/1990. Og það er ekki nema von vegna þess að miklar deilur eru í samfélaginu um hvernig fiskveiðistjórnarkerfi okkar eigi að vera. Það hafa verið svo miklar deilur í samfélaginu að hæstv. forsrh. lýsti því yfir í lok kosningabaráttunnar fyrir síðustu kosningar að skipuð yrði sérstök sáttanefnd og átti hún að skila nefndaráliti sem átti að verða matur í umræðunni um heildarendurskoðun á fiskveiðistjórnarlöggjöfinni. Nefndin var skipuð, en því miður verður ekki sagt að niðurstaðan hafi verið mikil sátt. Menn gátu ekki komist að sameiginlegri niðurstöðu. Fulltrúar stjórnarflokkanna voru meira að segja ekki alveg á eitt sáttir um hvernig fiskveiðistjórnarkerfið ætti að vera hjá okkur.

Fyrir rúmu ári lagði hæstv. sjútvrh. fram frv. um að fresta gildistöku laga um stjórn fiskveiða smábátanna. Það frv. var samþykkt og rökin fyrir því að frv. var lagt fram voru þau að heildarendurskoðun færi að fara fram og þess vegna borgaði sig ekki að vera að hringla neitt með smábátakerfið. Ári síðar var nánast þetta sama frv. lagt fram af hv. þm. Guðjóni Arnari Kristjánssyni og mér á sömu forsendum að vera ekki að hræra í smábátakerfinu vegna þess að fyrir dyrum stæði heildarendurskoðun á fiskveiðistjórnarkerfinu á Íslandi. Og núna á þessum degi lýsir hæstv. sjútvrh. því yfir að senn muni hann leggja fram frv. sem felur í sér heildarendurskoðun á fiskveiðistjórnarkerfinu okkar. Það frv. hlýtur senn að líta dagsins ljós. Við hljótum að ætla, herra forseti, að það frv. verði lagt fram í febrúar eins og hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir nefndi áðan ef á að samþykkja frv. og ætlast er til að það verði samþykkt á þessu þingi. Því spyr ég, herra forseti: Ef gert er ráð fyrir því að það frv. verði lagt fram, nýtt frv. sem felur í sér heildarendurskoðun á öllu fiskveiðistjórnarkerfinu okkar, ef það á að leggjast fram núna rétt eftir áramótin, þá spyr ég: Til hvers er þá verið að leggja það frv. fram sem liggur hér fyrir? Það eru svo fáir dagar þarna á milli. Það má orða það svo að í þessu sé holur hljómur. (Gripið fram í: Og hvellandi bjalla.) Og hvellandi bjalla, segir einn hv. þm. hér í salnum.

Herra forseti. Í nál. meiri hluta sjútvn. um það frv. sem hér er verið að leggja fram skrifar hv. þm. Hjálmar Árnason undir með fyrirvara. Kristinn H. Gunnarsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins. Sú spurning vaknar hvort hann sé sammála nál. meiri hlutans eða hvort hann hafi skrifað undir með fyrirvara eða muni skrifa undir, og þá eru eingöngu sjálfstæðismenn eftir ef hann er með fyrirvara líka. Það er því eins og ekki sé sátt um þetta, enda vita það allir menn. Það er heldur ekki sátt um það innan Sjálfstfl. hvernig haga eigi sjávarútvegskerfinu hérna. Þar er talað um auðlindagjald. Það var samþykkt sem sáttaleið eða talað var um að hafa hóflegt auðlindagjald sem sáttaleið. Sáttaleið á móti hverju? Til móts við hverja? Til móts við þá sem berjast fyrir því kerfi og vilja verja það kerfi sem nú er við lýði eða sáttaleið við þau 20% þeirra sem tóku þátt í landsfundinum og kusu með fyrningarleiðinni?

Þeir sem aðhyllast fyrningarleiðina og eru með þær skoðanir að auðlindin, í þessu tilviki fiskurinn í hafinu, sé sameign þjóðarinnar, þeir sem álíta að viðhafa eigi uppboðskerfi í tengslum við úthlutunina þar sem fjármunirnir fara í sjóði sveitarfélaga eða ríkisins eða til einhverra sérstakra verkefna sem eru landi og lýð til heilla, það er fólk sem ég tel að sé óhrætt við markaðinn, sé óhrætt við það að haft sé uppboð og að sá sem bjóði best hljóti, eftir náttúrlega einhverjum ákveðnum reglum eins og eru við slíkar aðstæður. Þetta er allt saman svolítið skondið þegar við hugsum um þá menn sem aðhyllast frjálsa verslun og viðskipti og eðlilega samkeppni að þeir skuli hneigjast inn á slíkar skömmtunarbrautir sem koma fram í núverandi sjávarútvegskerfi og líka í tillögunum um byggðakvóta. Þetta eru miklar mótsagnir og minna mikið á hugsun sem ríkti mjög í Ráðstjórnarríkjunum á sínum tíma þar sem ríkið útdeildi og þá oftast vinum og vandamönnum og hinir fengu ekki að komast að, hin venjulega alþýða. Menn eru farnir að sjá í æ ríkari mæli mótsagnirnar sem eru í þessu og þess vegna vex þeim ásmegin og þeim fjölgar með hverjum deginum sem aðhyllast það að fara eigi fram uppboð á heimildum til veiða.

(Forseti (GuðjG): Eins og áður hafði verið tilkynnt er gert ráð fyrir matarhléi frá kl. hálfátta til átta þannig að forseti biður hv. þm. að gera hlé á máli sínu þegar vel stendur á í ræðu hans, innan u.þ.b. tveggja mínútna.)

Herra forseti. Ég mun verða við þessu nú þegar. Ég var kominn að kaflaskilum í ræðu minni og þetta hentar mjög vel.