Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 12. desember 2001, kl. 20:23:46 (3101)

2001-12-12 20:23:46# 127. lþ. 51.2 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv. 129/2001, KPál
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 127. lþ.

[20:23]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Starf hv. sjútvn. og yfirferð nefndarinnar á frv. hæstv. sjútvrh. sem lagt var fyrir þingið fyrir nokkru síðan liggur fyrir. Ég verð að segja að þær tillögur og breytingar sem hv. sjútvn. hefur gert á frv. eru í mínum huga mjög til bóta, flestar hverjar. Ég þakka formanni nefndarinnar og öðrum nefndarmönnum fyrir vel unnin störf sem ég held að gagnist trillukörlum og því fólki sem byggir afkomu sína á útgerð smábáta.

Það verður að segjast eins og er að það er dálítið sérstakt að hlusta á hvernig stjórnarandstaðan heldur áfram að ræða um einhver allt önnur kerfi sem eru ekkert inni í myndinni og er löngu búið að ákveða að séu ekki nothæf. Ég heyri á ýmsum sem hafa talað töluvert um sjávarútveg í gegnum árin að það eru menn sem samþykktu fyrir fjórum árum að heimila veðsetningu aflaheimilda með skipum --- þeir hinir sömu gerðu eitt með því og það var að geirnegla kvótakerfið. Þeir koma svo núna í þessari umræðu og vilja fara allt aðrar leiðir í stjórn fiskveiða heldur en að nota kvótakerfið. Þeir vilja vera með dagakerfi eða fyrningarleið. Allt þetta er í raun ómögulegt vegna þess að veðsetningin geirnegldi þannig aflaheimildirnar við veðin að ekki er hægt að breyta þessu. Þessi málflutningur manna sem samþykkti þetta á sínum tíma er að mínu áliti bara lýðskrum af verstu gerð og slæmt hve mikil umræða hefur orðið um hugmyndir sem aldrei geta orðið neitt.

Það sem verið er að gera hér varðandi smábátana er að mínu áliti óhjákvæmilegt og mun tvímælalaust styrkja þetta rekstrarform og þá um leið þær byggðir og þær fjölskyldur sem byggja afkomu sína á þessum veiðum.

Ég ætla ekki að fara að telja upp það sem kom fram í frv. á sínum tíma en það sem gert hefur verið núna með tillögum frá meiri hluta sjútvn. er að mínu áliti mjög gott. Ég vil í fyrsta lagi nefna þá heimild að landa megi 5% af aflanum yfir árið sem undirmáli og selja á fiskmörkuðum samkvæmt ákveðnum reglum. Þetta ákvæði gerir ekki bara það að smáfiskadráp eða það að henda smáfiski í hafið á að heyra sögunni til heldur mun þetta efla fiskmarkaði og auka verðmæti á þeim sem mun um leið styrkja stöðu fiskvinnslufyrirtækja um allt land. Þetta ákvæði eitt og sér hefur örugglega mjög mikil áhrif í framtíðinni.

Annað sem mér fannst mjög til bóta er að heimila þeim bátum sem voru að veiðum á síðasta fiskveiðiári, reyndar var talað um frá 1. júní á síðasta ári til 31. maí, en nú er gert ráð fyrir því að miðað sé við fiskveiðiárið og velja megi annað af tveimur síðustu fiskveiðiárum, þá betra árið. Ég þekki dæmi þess að menn sem voru lítið að veiðum á síðasta ári vegna bilana eða höfðu lagt skipum sínum til að gera við þau, og höfðu náttúrlega ekki hugmynd um að þetta stæði til, munu njóta góðs af þessu. Þetta eru fyrst og fremst aðilar sem eru að vinna í þessu kerfi allt árið. Ég tel að þetta sé mjög sanngjarnt og eðlilegt.

Eflaust má finna ýmislegt að þessu eins og öllu öðru eða við getum sagt að fara hefði mátt lengra. Tíminn mun hins vegar leiða í ljós hvort það verður hægt en ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að framsal milli báta og jafnvel milli kerfa væri eðlileg viðskipti. Þessir útgerðaraðilar hvort sem þeir eru í litla eða stóra kerfinu eru að höndla með ,,eign`` sem þeir mega veðsetja og þeir eiga um leið að fá að nýta þessa eign sína eins og markaðurinn leyfir þeim. Ef markaðurinn leyfir þeim að leigja þetta frá sér yfir í stóra eða litla kerfið --- það skiptir ekki máli --- selja og eiga eðlileg viðskipti með þetta gerir það ekkert annað en auka verðmæti sjávarfangsins og styrkja útgerðarformið og ég held um leið vinnsluna þannig að öll slík miðstýring eins og er þarna, að 30% krókaaflamarksins megi leigja og ekki meira --- það er reyndar eins og þetta var í hinu kerfinu eða í þorskaflahámarkinu. Óhætt hefði verið að fara lengra og hafa þetta a.m.k. eins og það er í stóra kerfinu.

[20:30]

Mér finnst það sama um tilfærslu milli kerfa. Ég sé ekki hættuna við að heimila trillukörlum og þeim sem eru í stóra kerfinu að versla sín á milli á jöfnu. Í raun væri ekki verið að leggja litla kerfið í neina hættu. Ætlunin var að skipta á jöfnu. Það átti ekki að selja úr einu kerfinu yfir í annað. Ég held að það sé ástæðulaus ótti. Hins vegar má kannski skilja þann ótta að ýmsu leyti. Ýmsir telja að ef krókabátarnir ná ekki að blómstra og þrífast í þessu kerfi muni þessi útgerð hverfa, þ.e. að þetta geti verið ein leiðin til þess. Það held ég að sé misskilningur. Það er óþarfi að hafa fleiri orð um það.

Herra forseti. Ég sé fyrir mér að í framtíðinni muni útgerðarmenn þessara krókaflamarksbáta fái heimildir til að stækka bátana. Það kom fram í sáttanefndinni að hún teldi eðlilegt að stækka þessa báta t.d. upp í 15 tonn. Ég sé ekki neitt því til fyrirstöðu. Það hefur hamlað verulega veiðigetu þessara báta hve litlir þeir eru og óöruggir. Þetta kemur í veg fyrir að þeir geti verið á netum. Reyndar er það ekki heimilt samkvæmt þessum lögum en ég sé ekki hvers vegna þessir bátar ættu ekki að geta veitt upp aflaheimildir sínar í net eða í dragnót alveg eins og í hinu kerfinu. Ég tel að sú umræða muni koma aftur upp þegar lögin um breytingar á stjórn fiskveiða verða til umræðu á næsta vori.

Ýmislegt annað í þessu frv. er mjög athyglisvert og vekur spurningar. Eitt sem mig langar til að spyrja hv. formann nefndarinnar um er úthlutun á þeim aflaheimildum sem eiga að fara til, eins og það er orðað í nefndarálitinu: ,,... útgerðar í byggðarlögum sem eru að verulegu leyti háðar veiðum krókaaflamarksbáta.`` Nú þekkjum við dæmi þess að nokkuð stór byggðarlög hafi tapað nánast öllum sínum kvóta. Ég get nefnt sem dæmi eitt byggðarlag, Sandgerði á Suðurnesjum, sem er búið að tapa frá sér nánast öllum aflaheimildum eða mjög stórum hlut af aflaheimildum sínum.

Maður veltir því fyrir sér hvort sveitarfélög sem hafa tapað ákveðnu hlutfalli aflaheimilda úr byggðarlaginu ættu ekki að fá úthlutað úr þessum potti. Þetta á ekki að vera bundið við, eins og þetta hljómaði upphaflega, Grímsey og hugsanlega Súgandafjörð og Bolungarvík, ef vel er að gáð --- Raufarhöfn, Bakkafjörð o.s.frv. (JÁ: Viltu ekki fara um allt landið?) Ég tel enga ástæðu til þess að negla þetta niður við einhverja ákveðna landshluta. Ég sé þetta fyrst og fremst sem tæki til að hjálpa byggðum hvar sem er á landinu þegar þess gerist þörf. Ég vildi gjarnan fá, ef hv. formaður Einar Kristinn Guðfinnsson gæti aðeins upplýst okkur um það, lýsingu á því hvernig þeir í nefndinni hafi hugsað sér útfærsluna á þessu.

Ég vil svo að lokum, herra forseti, segja að ég held að það hafi verið skynsamlegt að reyna að átta sig betur á því hvernig ætti að landa dagabátakerfinu. Í því kerfi eru ansi margir bátar og þegar bætast við bátar sem voru með 30 tonnin á 40 dögum, sem eru að ég held 70 eða 80 bátar, og í þessum flokki verða alls 200 bátar, þá þarf að velta því vel fyrir sér hvernig þetta passi saman og hvernig gera eigi þeim lífið bærilegt. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu að kerfið sem þessir bátar róa eftir hafi hærra gólf en nú. Ég vil gjarnan skoða framsal á milli báta og búta dagana niður í klukkustundir í staðinn fyrir að hafa þetta í heilum sólarhringum. Þeir hafa kvartað mjög yfir því, trillukarlar í þessu kerfi, að þurfa að vera úti í sólarhring í einu. Ég skil það mjög vel. Mér fyndist mjög eðlilegt að tekið yrði tilliti til þess.

Ég hef rætt við nokkuð marga sem stundað hafa útgerð af þessu tagi og þar er margt sem má laga. Þetta er þó fyrst og fremst spurning um tæknileg atriði. Þetta skiptir ekki miklu máli hvað varðar veiðarnar sjálfar og hve mikið berst að landi. Þetta er fyrst og fremst spurning um hagræðingu fyrir þessa karla. Mér finnst að það eigi að þjóna þeim sem allra best og gera þeim lífið sem bærilegast á þessum litlu skipum því að þeir leggja sig sannarlega hart fram við að draga fisk úr sjó.

Ég vil að endingu, herra forseti, segja að ég held að þetta frv. muni styrkja kerfi krókaaflamarksbáta. Það mun styrkjast og eflast og verður til framtíðar sem ég er nokkurn veginn viss um að mundi ekki gerast annars. Fyrir það vil ég þakka því að ég hef alltaf litið svo á að þeir báta sem stunda veiðar í krókaflakerfinu hafi í raun tekið við af vertíðarbátunum. Vertíðarbátarnir tryggðu hér áður að jafnaði hráefni til landvinnslunnar og mér sýnist að það sé ekki neitt öðruvísi í dag. Það er ekki víst að það muni breytast mikið í framtíðinni.

Þetta útgerðarform hefur líka verið það langtryggasta fyrir fiskmarkaði og haldið uppi dampi þar og mikilli vinnslu í sérvinnsluhúsum, litlu frystihúsunum sem fá afla sinn á mörkuðum.