Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 12. desember 2001, kl. 20:39:28 (3102)

2001-12-12 20:39:28# 127. lþ. 51.2 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv. 129/2001, KVM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 127. lþ.

[20:39]

Karl V. Matthíasson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. er í flestu ánægður með frv. sem hér er lagt fram. Ég er ekki eins ánægður og hann. Þó er ég sammála honum og tek undir með hv. þm. um að ákvæðið um 5% er mjög gott, enda taka allir undir það. Samt er á afstöðu okkar blæbrigðamunur. Samfylkingarmenn vilja, eins og fram kemur í brtt. sem ég er meðflutningsmaður, gera ráð fyrir því að andvirði þessa fjár renni til hafrannsókna en ekki eingöngu til Hafrannsóknastofnunar. Ég tel mjög mikilvægt að fleiri aðilar en Hafrannsóknastofnun hafi aðgang að fjármagni til að stunda rannsóknir á lífríkinu í hafinu í kringum Ísland og það muni auðga það starf og efla jafnvel háskóla og fleiri til að leggja stund á slíkar rannsóknir.

Hins vegar er ég algerlega ósammála hv. þm. þegar hann talar með fremur jákvæðum hætti um framsalið. Ég tel að framsalið sé hættulegt og það hafi verið hinn stóri og mikli akkillesarhæll þessa fiskveiðistjórnarkerfis sem við búum við.