Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 12. desember 2001, kl. 20:44:59 (3105)

2001-12-12 20:44:59# 127. lþ. 51.2 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv. 129/2001, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 127. lþ.

[20:44]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Það yrði of langt mál fyrir mig að telja upp hvers vegna staðirnir hefðu tapað aflaheimildum. Ég þekki ágætlega til í Súgandafirði svo ég nefni dæmi. Ástæðan fyrir því að aflaheimildirnar fóru þaðan var sú að fiskiðjuverið Freyja varð gjaldþrota. Það kom kvótakerfinu ekki neitt við.

Miðnes í Sandgerði sameinaðst Haraldi Böðvarssyni uppi á Akranesi. Það var eðlilegur samruni fyrirtækja. Sá samruni hefði í raun getað orðið í hvaða kerfi sem er. Þeir sem áttu Miðnes hefðu getað selt fyrirtæki sitt undir hvaða kerfi sem er, uppi á Skaga eða hvert sem var. Það er bara mjög óheppilegt að margt kom upp í Sandgerði á sama tíma. Miðnes var ákaflega stórt og öflugt fyrirtæki.

Ég ætla ekki að kenna kerfinu um þetta. Þetta voru bara viðskipti milli tveggja sjálfstæðra aðila.