Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 12. desember 2001, kl. 20:52:15 (3109)

2001-12-12 20:52:15# 127. lþ. 51.2 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv. 129/2001, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 127. lþ.

[20:52]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Við erum svo sem oft búnir að ræða það, við hv. þm. Jóhann Ársælsson, að undir stjórnkerfi þar sem menn verða að lúta einhverjum takmörkunum verða aldrei allir jafnir. Það er bara þannig. Það hefði verið nákvæmlega sama þótt við værum með dagakerfi. Það væru aldrei allir jafnir. Úthlutað væri einhverjum ákveðnum dögum og einhver ákveðinn útgerðaraðili ætti þá daga. Þeir sem ætluðu sér að komast inn þyrftu þá að kaupa sér daga. Ég held því að ekki sé hægt að kenna þessu kvótakerfi um það þó að fyrirtæki hafi færst úr byggðarlögum. Það er fyrst og fremst sú neyð sem við höfum þurft að beita eða neyðarrétti, þ.e. að stjórna veiðunum, þannig að sóknin í stofnana yrði þeim ekki um megn. Þá reynslu höfðum við fengið frá öðrum þjóðum að tiltölulega auðvelt var að veiða upp stofna þannig að þeir komu nánast aldrei aftur. Við höfum líka séð hvernig Evrópusambandið hefur stjórnað veiðum í sína stofna og þetta er allt að hruni komið.

Ég sé ekkert því til fyrirstöðu, herra forseti, að björgunaraðgerðir hingað og þangað um landið í einhverjum takmörkuðum mæli gætu orðið viðvarandi í þinginu í gegnum árin því að sjávarútvegur er það ríkur þáttur í efnahagslífi þjóðarinnar og heldur uppi atvinnulífi í mörgum byggðum. Ég sé því ekkert til fyrirstöðu að fiskveiðistjórnarkerfið verði notað í einhverjum mæli til þess að viðhalda byggð í landinu.