Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 12. desember 2001, kl. 21:50:08 (3113)

2001-12-12 21:50:08# 127. lþ. 51.2 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv. 129/2001, sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 127. lþ.

[21:50]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (andsvar):

Herra forseti. Við höfum hlýtt á athyglisverða ræðu hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni. Út af fyrir sig eru engin tíðindi að hann haldi athyglisverðar ræður en það sem sérstaklega vekur athygli mína við þessa ræðu er að mér finnst eins og hv. þm. tali nú í fyrsta skipti sem andstæðingur kvótakerfisins. Hann hefur vissulega haft uppi gagnrýnisorð á kvótakerfið en mér finnst hann aldrei hafa talað fyrr sem andstæðingur kerfisins og ég minnist þess ekki að hafa heyrt hann úttala sig um að hann sæi eftir að hafa tekið þátt í málamiðluninni 1990 þegar kvótakerfinu var breytt, þegar sóknarmarkið var tekið út og kvótakerfið varð allsráðandi um meginhluta útvegsins. Að vísu var hann í ríkisstjórn þegar þetta var og tók auðvitað þátt í þeirri málamiðlun en mér finnst hann í fyrsta skipti lýsa því yfir að hann sjái eftir því og tala eins og hann sé andstæðingur kvótakerfisins.