Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 12. desember 2001, kl. 21:57:14 (3117)

2001-12-12 21:57:14# 127. lþ. 51.2 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv. 129/2001, GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 127. lþ.

[21:57]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Bara til að draga það hér inn í umræðuna vil ég vekja athygli á því að árið 1990, í janúar, sendi Farmanna- og fiskimannasambandið --- en ég var þá forseti þess --- frá sér mjög mikla tímamótaviðvörun varðandi framtíð kvótakerfisins að því er ég taldi þá, og tel enn.

Við bentum á það, jafnframt því sem við óskuðum eftir að betur yrði unnið og tekið á þessum vandamálum, að þetta mundi valda ósætti með þjóðinni, þetta mundi valda tekjumismun milli sjómanna innbyrðis og milli skipaflota og milli byggðarlaga. Sambandið bauðst til að koma sérstaklega að því að ræða þessi álitamál til að fjalla betur um það sem þá átti að gera en á grundvelli þess að það var ekki gert hafnaði Farmanna- og fiskimannasambandið kerfinu, m.a. með þessum rökum.

Þetta vildi ég draga hér fram og er sammála því sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði áðan, að það vakti furðu mína á þeim tímapunkti að sveitarstjórnir og sveitarstjórnarmenn skyldu ekki taka til athugunar það sem við vorum að vara við, um tekjumismun byggðarlaganna og tilflutning á aflaheimildum milli byggða.

Svo heyrði ég að hv. þm. auglýsti hér í umræðunni eftir ráðherra byggðamála. Mér finnst eiginlega ofáætlan hjá hv. þm. að ætlast til þess að byggðamálaráðherra sé hérna við. Hæstv. ráðherra lýsti því yfir í umræðunni í gær að hún liti svo á að Hæstiréttur hefði dæmt hana til að stjórna fiskveiðum á Íslandsmiðum eingöngu með kvótakerfi og hún hlýtur að sitja uppi með þann dóm og trúa því.