Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 12. desember 2001, kl. 21:59:17 (3118)

2001-12-12 21:59:17# 127. lþ. 51.2 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv. 129/2001, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 127. lþ.

[21:59]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það er bara örstutt. Ég man eftir þessari afstöðu Farmanna- og fiskimannasambandsins á sínum tíma. Það hefur löngum verið skeleggt, og var það á meðan hv. þm. var þar í forsvari. Menn velktust ekki í vafa um hvar það stóð, og stundum heyrðist ágætlega í því ef ég man rétt.

Það er alveg hárrétt að menn hlustuðu lítið á ýmis varnaðarorð sem uppi voru árið 1990 og ég tel auðvitað eftir á að hyggja að menn hafi í raun og veru alls ekki séð nógu vel fyrir afleiðingarnar af þeim breytingum sem þá voru gerðar. Í ræðu minni áðan komu svo sem fram efasemdir og ákveðin sjálfsgagnrýni í þeim efnum. Ég minni þó á að þeir sem höfðu af þessu áhyggjur voru auðvitað að berjast fyrir því að menn væru með ákveðin viðbrögð viðbúin, tilbúin, og þarna var bæði settur þessi byggðapottur upp á 12 þús. tonn og, hvort sem hann var fyrir í lögunum eða kom þarna inn, forkaupsréttur sveitarfélaganna. Hann reyndist síðan að sjálfsögðu smátt og smátt ónýtur, eins og við vitum, en hann er þó ákveðin vísbending og yfirlýsing um að menn höfðu af þessu áhyggjur. Auðvitað var þessi umræða uppi en það var allt barið niður og menn töldu að ekkert þyrfti að gera með slík sjónarmið. Smátt og smátt varð það gagnslaust tæki í höndum fjársveltra sveitarfélaga.

Ég á bágt með að trúa að sjálfur ráðherra byggðamála hafi gefið svona dómadagsyfirlýsingu hér um að Hæstiréttur hafa bara dæmt núverandi kvótakerfi yfir okkur um aldur og ævi. Það væru nú meiri firnin og ósköpin. Það er auðvitað alveg víðs fjarri öllum sanni og ég veit að Hæstarétti sárnar að vera borinn fyrir slíku en ég held að það verði þá að leiðrétta þann misskilning einhvern veginn ef hann er hér uppi.