Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 12. desember 2001, kl. 22:25:27 (3124)

2001-12-12 22:25:27# 127. lþ. 51.2 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv. 129/2001, GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 127. lþ.

[22:25]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Til að varpa örlitlu ljósi á þetta dæmi má t.d. benda á svar eða álit frá Stöðvarhreppi fyrir austan. Þar benda þeir á að fimm smábátaútgerðir greiði 70 millj. í laun. Af því fái hreppurinn 7,8 millj. í útsvar, sem séu hvorki meira né minna en 24% af öllum útsvarstekjum hreppsins. Í bréfinu segir að það sem verið sé að gera núna muni rýra verulega búsetumöguleika fólksins í hreppnum. Í staðinn fyrir fimm báta verði e.t.v. hægt að gera út tvo. Það sjá allir hvers konar afleiðingar þetta er að hafa fyrir þessi byggðarlög.

Í þessum minni byggðarlögum skiptir alveg ofboðslega miklu máli að þessi réttur smábátanna geti haldist að einhverju leyti eða að mestu leyti óbreyttur. Það er auðvitað vegna þess að þau hafa ekki að neinu öðru að hverfa. Menn væru sjálfsagt ekki að kvarta í þessum minni sjávarbyggðum ef þeir hefðu óþrjótandi möguleika í að fara.

En sjávarbyggðirnar á Íslandi urðu aðeins til vegna þess að þær lágu vel við fiskimiðum og fólkið sem þar vill búa hlýtur að eiga einhvern rétt til þess að við stjórnmálamennirnir virðum rétt þeirra til að geta lifað þar.