Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 12. desember 2001, kl. 22:27:00 (3125)

2001-12-12 22:27:00# 127. lþ. 51.2 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv. 129/2001, JB
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 127. lþ.

[22:27]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða. Þær breytingar sem hér er verið að leggja til miða að því í fyrsta lagi að verið er að festa enn frekar í sessi kvótasetningu á smábátaflotann og í öðru lagi er verið að plástra aðeins verstu ágalla þess kerfis án þess að þar sé þó um neina fullnægjandi aðgerð að ræða eða hluta af heildarsýn í fiskveiðistjórnarmálum. Það sem hér er því verið að gera er í rauninni staðfesting á kvótakerfinu en krafl í það að öðru leyti og einungis að því sem snýr að smábátunum.

Það sem ég vildi gera að umtalsefni sérstaklega er í fyrsta lagi, eins og hér hefur aðeins verið minnst á fyrr í umræðunni, forsendur kvótakerfisins varðandi fiskstofnana við landið. Forsendur kvótakerfisins ganga út frá því að við landið sé í rauninni bara einn þorskstofn, bara einn keilustofn, bara einn steinbítsstofn og bara einn ýsustofn og að nánast sama sé hvar hann er veiddur í kringum landið, þ.e. að það sé bara eitthvert ákveðið magn af fiski sem megi veiða með þeim hætti að fá kvóta til veiðiréttar þar á.

Herra forseti. Þetta held ég að sé afar röng nálgun og vonandi verður nú lögð aukin áhersla á það í rannsóknum á fiskstofnunum við landið að kanna hvort ekki sé um allmarga aðskilda fiskstofna að ræða, fiskstofna sem eru bara að takmörkuðu leyti á þessari hringferð í kringum landið, eru kannski stóran hluta ársins meira eða minna staðbundnir.

[22:30]

Við þekkjum þær rannsóknir sem núna er verið að gera, t.d. á laxi, þar sem rannsóknir eru komnar lengra á laxi, að þar eru stofnar eða afbrigði af laxi sem velja sér ákveðnar ár og ekki aðeins einstakar ár heldur eiga þeir líka til með að velja einstök svæði í ánum. Þegar síðan þessi lax er veiddur, ef veiddur er alveg allur lax úr einni hliðará frá annarri stórá, þá getur sú hliðará orðið laxlaus mörg, mörg ár ef ekki er eftir hrygningarfiskur sem hefur þar heimkynni sín. Þetta er þegar orðið mjög þekkt í umgengninni við laxastofnana í ánum hér, að hver á á sinn stofn og meira að segja hver hliðará getur átt sitt afbrigði sem ekki endurnýjast svo glatt ef þeim fiski er útrýmt sem þar er. Þetta er einmitt eitt stærsta vandamálið sem hefur komið upp varðandi laxárnar með sleppingum, með því að sleppa seiðum af hinum og þessum laxastofnum í þeim tilgangi að auka laxgengd í árnar. Þetta hefur einmitt skekkt hina raunverulegu heimastofna ánna. Slík aðgerð getur aukið heildarlaxagengdina um tíma en þegar til lengri tíma er litið hefur þetta skaðað heimastofninn þannig að áin sem slík er farin að framleiða miklu minna af laxi og lax sem átti heimkynni sín í hliðarám árinnar hefur tapað í þeirri samkeppni eða er orðinn útdauður. Þannig hefur heildarframleiðslugeta árinnar skerst.

Það er alveg fráleitt annað, herra forseti, en a.m.k. að ætla, þangað til rannsóknir sýni hreinlega annað, að eins sé ekki háttað um þorskstofnana og fiskstofnana hringinn í kringum landið. Það er vitað að laxinn úr ánum fer út í haf og syndir þar og er að einhverju leyti saman með stofnum frá öðrum ám, en að stórum hluta lifir hann síðan aðskildu lífi sínu.

Ég leyfi mér að vitna til persónulegrar reynslu og upplifunar þegar ég sem ungur strákur var að alast upp norður á Ströndum og faðir minn var einmitt útvegsbóndi og stundaði sjóinn. Þá man ég eftir því að fiskurinn fékk sitt nafn, hvaðan hann var að koma. Þeir þekktu meira að segja að hvert grunn eða hver mið úti á Húnaflóanum áttu sinn einkennisfisk, þannig að þeir voru ekki í neinum vafa um hvaðan fiskurinn kom eða af hvaða raunheimkynnum eða grunnheimkynni viðkomandi fiskur átti. Þetta var svo nærtækt í tali manna, þetta þótti svo sjálfsagt. Þess vegna er jafnfráleitt í fiskveiðistjórnarkerfi, heildstæðu fiskveiðistjórnarkerfi, að hreinlega útiloka þessa hlið málsins en líta á þetta sem eina heildarpúllíu sem megi veiða hvar sem er og hvernig sem er bara út á tiltekinn kvóta.

Ég held reyndar að við sem lifum og hrærumst í náttúrunni vitum að afar litlar líkur eru á því að það sé bara einn fiskstofn, einn þorskstofn við landið. Það eru afar litlar líkur til þess að svo sé og það sé sama þess vegna hvar viðkomandi tonn eru tekin sem leyft er að veiða án þess að það geti þá skaðað heildarafkastagetu þorskstofnanna eða fiskstofnanna við landið. Kvótakerfið sem slíkt, sem byggir á því að þetta sé svona, er röng hugmyndafræði, reynist þetta vera rétt sem ég hér er að ýja að, og stórhættuleg fyrir fiskveiðistefnu okkar.

Varðandi þá kvótasetningu sem hér á sér stað með þeim lögum sem hér er verið að leggja til, þá leiðir hún af sér að fisktegundir sem áður voru ekki kvótabundnar og þar af leiðandi ekki hægt að selja fiskveiðiheimildirnar verða nú framseljanlegar, að vísu innan ákveðins bátaflokks sem hér er um að ræða, en þau grundvallaratriði um framsal á aflaheimildum verða þarna orðin virk þannig að staða íbúanna á viðkomandi stöðum þar sem þessir bátar og sá floti hefur veitt og lagt upp er mun ótryggari nú en áður vegna þess að þær aflaheimildir geta gengið kaupum og sölum án þess að íbúar viðkomandi svæða hafi nokkuð um það að segja. Þetta hlýtur að vera þeim byggðum enn þá alvarlegra mál, einmitt þeim byggðum sem síst mega við auknu óöryggi á þessu sviði, ætti frekar að vera á hinn veginn.

Ég vil auk þess, herra forseti, draga hér inn þátt sem ekki hefur verið mikið ræddur en það er réttur sjávarjarða. Það eru allmargir bændur og allmargar jarðir sem geta nýtt auðlindir sínar bæði til lands og sjávar. Ég er sjálfur uppalinn við það að stundaður var sjór og rekinn búskapur jöfnum höndum og það skapaði ágæta lífsgrundvöll fyrir fjölskylduna á þann hátt. Og enn eru margar jarðir sem væri verulegur styrkur í því ef þær hefðu verndaðan ákveðinn rétt til að nýta einmitt slíkar auðlindir. Þessi réttur yrði að sjálfsögðu að vera bundinn jörðinni og bundinn því að vera nýttur af þeim sem þar býr og ekki væri hægt að framselja hann en væri bundinn á þann hátt að það gæti orðið til styrktar þeirri búsetu og einmitt líka til hagkvæmra veiða, hagkvæmrar nýtingar á þeirri auðlind. Þetta tel ég, herra forseti, að hefði átt og ætti að koma inn í umfjöllun um þennan bátaflota sem hér er verið að fjalla um og/eða þá að þetta verði haft í huga þegar koma fram tillögur um þann hluta bátaflotans sem stendur hér út af í þessari umfjöllun, þ.e. dagabáta og reyndar líka aflamarksbátana.

Ég vil nefna vegna þeirrar umræðu sem hefur oft orðið hér, að það skipti ekki máli hvar fiskurinn sé veiddur eða hvar honum sé landað eða hvar hann sé unninn, að hann sé fluttur langa vegu eða þetta séu þá bara útlendingar sem vinni fiskinn. Það er nú svo að einmitt fiskvinnslufólk hefur búið við hvað mesta óvissu af öllum þeim sem hafa tengst sjávarútveginum, fiskvinnslufólk og það fólk sem býr í landi á viðkomandi útgerðarstöðum og hefur lítil áhrif á það hvernig með fiskinn er farið þegar í land er komið. Það hefur búið við mesta óöryggið og þess vegna ekki óeðlilegt að það sé það fólk sem fyrst hafi hugsað sér til hreyfings frá viðkomandi sjávarplássum.

En það er líka efnahagsstefnan hér á landi, efnahagsstefna undanfarinna ára sem hefur einmitt ýtt undir þá þróun, efnhagsstefna sem hefur leitt til mikils viðskiptahalla við útlönd, efnahagsstefna sem hefur leitt til þess að hér hefur byggst upp atvinnulíf, eins konar falskt atvinnulíf sem hefur byggst og nærst á viðskiptahallanum. Sá viðskiptahalli, þetta innflæði af fjármagni hefur sogað til sín vinnuafl úr þeim atvinnugreinum sem eru í raun að skapa þann gjaldeyri sem verður fyrr eða síðar að stórum hluta að greiða upp þann viðskiptahalla sem safnast hefur. Þetta er ein ástæðan fyrir því m.a. að fólk hefur flust af landsbyggðinni, flust úr sjávarbyggðum og til höfuðborgarsvæðisins, það er óöryggið í atvinnumálum og einnig sú þensla sem hefur skapast af röngum áherslum í efnahags- og atvinnumálum sem hefur lýst sér í miklum viðskiptahalla og atvinnulífi sem hefur orðið til á þeim grunni.

Herra forseti. Það er dapurlegt til þess að vita að enn skuli ekki vera komin í raun endurskoðuð heildarstefna í sjávarútvegsmálum sem hefur verið svo margboðuð, stefna sem hefði getað leitt til víðtækari sáttar um nýtingu þessarar auðlindar okkar, auðlindar sem er svo mikilvæg og stendur undir svo stórum hluta af þjóðarbúskapnum og hagvaxtarvæntingum, að enn skuli ekki vera komin fram endurskoðuð stefna sem tekur mið af hagsmununum, þeim hagsmunum sem öll þjóðin, íbúarnir meðfram ströndum landsins geta sætt sig við og búið við og sótt og stundað atvinnu sína í friði og sátt. Og enn er verið að klóra í bakkann með því frv. sem hér er lagt fram. Þetta er eitt hið brýnasta mál að taka fyrir og ljúka þar sem tekið verður mið af hagsmunum fólks vítt og breitt um landið en ekki eingöngu hagsmunum þar sem arðsemi fjármagns þeirra sem hafa lagt hlutafé sitt í útgerðina, að hagsmunir þeirra einir ráði og með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir fjölda fólks.

Herra forseti. Ég ætla að ljúka máli mínu en vona að það takist betur til um lagasetningar varðandi stjórn fiskveiða og í raun takist að leggja fram fiskveiðistjórnarkerfi sem skapi raunverulega sátt í þjóðfélaginu.