Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 12. desember 2001, kl. 23:32:32 (3133)

2001-12-12 23:32:32# 127. lþ. 51.2 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv. 129/2001, Frsm. 1. minni hluta JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 127. lþ.

[23:32]

Frsm. 1. minni hluta sjútvn. (Jóhann Ársælsson) (andsvar):

Já, hæstv. forseti, okkur hv. þm. greinir afar mikið á þegar hann segir að viðskipti með leigukvóta eigi ekkert skylt við skatt.

Skoðun okkar í Samfylkingunni er sú að þessi þjóðarauðlind sé sameiginleg eign okkar, landsmanna. Þess vegna á aðgangurinn að henni að vera sameiginleg eign okkar. Ef menn vilja kalla það skatt að við innheimtum sameiginlega þessa fjármuni geta menn alveg eins kallað það skatt þegar mönnum er gefið leyfi til sköttunarinnar með þeim hætti sem þetta kerfi gerir, þegar einkaaðilum er gefið leyfi til að selja aðgang að þjóðarauðlindinni.

Það er einmitt í hnotskurn það sem við höfum verið að takast á um allan tímann. Það er auðvitað gjörsamlega óþolandi og fráleitt og það er það sem við viljum koma af. Það verður ekki gert á augabragði og auðvitað þarf að ná samkomulagi um það hvernig menn kalla þessi veiðiréttindi inn og koma þeim aftur í hendur útgerðarinnar með sanngjörnum og eðlilegum hætti en það verður að gerast.

Það hlýtur að blasa vel við hv. þingmanni að þegar útgerðin innheimtir á 33 mánuðum hátt í 12 milljarða fyrir leigu á veiðiheimildum bara í gegnum Kvótaþing séu æðistórir hlutir á ferðinni sem full ástæða er til að gefa gaum að. Þessi fénýting er fráleit.