Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 12. desember 2001, kl. 23:38:07 (3136)

2001-12-12 23:38:07# 127. lþ. 51.2 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv. 129/2001, GAK
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 127. lþ.

[23:38]

Guðjón A. Kristjánsson:

Núna við lok þessarar umræðu langar mig aðeins að koma inn á efni sem menn hafa vikið að í ræðum sínum. Það sem ég ætla að koma fyrst að eru ráðleggingar Hafrannsóknastofnunar á undanförnum árum, nýting á þessum fiskstofnum og veiðar úr þeim. Þótt ég hafi hér upplýsingar sem ég tók saman vorið 1999 þegar núv. sjútvrh. var nýtekinn við völdum --- sem ég reyndar afhenti honum ásamt hafrannsóknamönnum --- ætla ég samt ekki að lesa alla þá greinargerð. Ég ætla að fara yfir sögu ýsunnar eins og ég skráði hana í þessa skýrslu, sögu ýsuveiðanna og ráðlegginganna, og síðan steinbítinn, þær tegundir sem við höfum verið að tala um hér.

Með leyfi forseta ætla ég að vitna í þessa skýrslu mína. Titillinn er svohljóðandi:

,,Ýsusaga Hafró, er þetta árangur af fiskveiðistjórnun?``

Síðan byrjaði textinn svona:

Í skýrslu í maí 1994 segir að tillaga Hafró sé sú að veiða skuli 65 þús. tonn af ýsu frá 1. sept. 1994 til 30. ágúst 1995 og þannig muni veiðistofn ýsunnar fara stækkandi. Veitt var 61 þús. tonn eða 4 þús. tonnum minna en Hafró lagði til.

Vorið 1995 var tillaga Hafrannsóknastofnunar að veiða skyldi 55 þús. tonn af ýsu, og veidd voru 54 þús. tonn, 1 þús. tonni minna en Hafrannsóknastofnun lagði til.

Vorið 1996 lagði Hafrannsóknastofnun til að veidd yrðu 40 þús. tonn. Aflinn varð 38 þús. tonn eða 2 þús. tonnum minni en Hafrannsóknastofnun lagði til.

Vorið 1998 lagði Hafrannsóknastofnun til 35 þús. tonn og þegar þetta var tekið saman sást ekki hver aflinn varð en auðvitað kom það í ljós síðar að aflinn á fiskveiðiárinu 1998--1999 varð 45.300 tonn, eða 10 þús. tonnum meiri en Hafrannsóknastofnun lagði til.

Þegar þetta var tekið saman fyrir fiskveiðiárin 1994--1998 kom í ljós að á þessum fjórum árum sem ég var með undir í samantektinni hafði ráðlagður afli Hafrannsóknastofnunar verið um 200 þús. tonn á þessum fjórum árum. En hver var veiddi aflinn? Hann var 204 þús. tonn eða aðeins 2% umfram ráðleggingu Hafrannsóknastofnunar á fiskveiðiárunum 1994--1998.

Varla verður farið mikið nær settum aflamörkum eins og sést á því að frávikið er ekki nema 2%. Og því var auðvitað spurt: Var ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar vitlaus sl. fjögur fiskveiðiár, á þessum árum, eða voru það þessi 4 þús. tonn sem ollu því að nú tvö ár í röð og alveg fram til 2002 á aðeins að veiða 35 þús. tonn af ýsu á ári?

Von var að spurt væri þegar búið var að fara eins nálægt ráðgjöfinni og ég var að lýsa. Og á þessu ári hefur Hafrannsóknastofnun upplýst, þegar verið var að tala um ráðgjöf hennar varðandi þorskstofninn, að eðlileg skekkjumörk hjá stofnuninni gætu vel legið á bilinu 20--30%. Við skulum, til að láta þá njóta vafans, segja 15--25%.

Skekkjumörkin varðandi ýsuna hafa aldrei verið fullnýtt í veiðinni þegar þau hafa verið tekin saman á nokkurra ára tímabili. Þess vegna furða menn sig auðvitað á því að nú sé svo komið að við höngum alltaf í ársafla sem er niður í 30--35 þús. tonn eða í leyfðri veiði sem er á því bilinu. Á fiskveiðiárinu 1999/2000 veiddum við hins vegar 41.200 tonn, veiddum þá 6.200 tonn umfram ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar.

Þetta er sem sagt allt innan þessara frægu skekkjumarka og rúmlega það, og ekki hefði framúrkeyrslan upp á 2% á árunum 1994--1998 átt að valda því að við værum á fleygiferð niður með ýsuveiðina eða réttara sagt ráðlagða ýsuveiði. Enda hefur komið í ljós að það hefur verið hægt að fiska meiri ýsu, einkum inni á grunnslóðinni við landið þar sem krókabátarnir hafa stundað veiðar sínar.

Ég leyfi mér að líta svo á að í raun og veru hafi krókabátarnir sýnt fram á að hægt var að veiða meiri ýsu og að veiðiráðgjöf Hafrannsóknastofnunar hafi ekki verið rétt á þessum árum. Það var aldrei nein sérstök ástæða til að keyra ýsuveiðina jafnlangt niður og tillögur Hafrannsóknastofnunar hafa verið á undanförnum árum. Það voru aldrei neinar vísbendingar eða rök fyrir því að við hefðum átt að gera það enda mun það sannast sagna að mjög fljótlega verði aukið við ýsukvótann þrátt fyrir að við höfum verið að veiða umfram ráðleggingar Hafrannsóknastofnunar undanfarin tvö, þrjú ár. Þannig er það.

Í öllum deilunum um það hvort það skipti sköpum að veitt sé 5 þús. tonnum meira eða minna í þessu líffræðilega samhengi eru menn að hengja sig í hreint bull að mínu viti, gera úlfalda úr mýflugu og valda miklum erfiðleikum með því að krefjast þess nánast að á þeim sé mark takandi að því leyti að stefni beri ævinlega inn á þau þúsund tonn sem Hafrannsóknastofnun leggur til í hverju tilviki.

[23:45]

Síðan langar mig að víkja að þeirri frægu fisktegund, steinbítnum. Það er fisktegund sem að mestu hefur verið utan kvótakerfisins --- besta fiskveiðistjórnarkerfis í heimi, eins og sumir hafa kallað kvótabraskskerfið okkar. Veiðin úr steinbítsstofninum hefur því verið að mestu frjáls og óheft, reyndar hefur ekki allur kvótinn verið veiddur síðastliðin ár eftir að þessi göfuga fisktegund var vistuð í kvótakerfinu að nýju árið 1996. Öllum til óþurftar fór steinbíturinn í kvóta og síðan hefur hann verið notaður í tegundartilfærslu að stórum hluta innan aflamarkskerfisins.

Á síðastliðnum 50 árum, í hálfa öld, hefur meðalveiðin á steinbít verið 15 þús. tonn ár hvert, að mestu leyti í alfrjálsum veiðum. Síðastliðin tíu ár utan kvóta er meðalsteinbítsaflinn 14 þús. tonn, þ.e. meðan steinbíturinn var ekki í kvótakerfinu. Hann fór inn í það á upphafsárinu 1984, var tekinn út 1985 og var síðan utan kvóta til ársins 1996. Á því árabili veiddum við að meðaltali 14 þús. tonn.

Svo virðist sem steinbítnum hafi farnast mjög vel án kvótakerfis. Hafró leggur nú til að aflinn fari ekki yfir 13 þús. tonn. Best væri að kippa steinbítnum sem fyrst úr kvótanum aftur svo komið yrði í veg fyrir það niðurskurðarferli sem nú er hafið í tillögum Hafrannsóknastofnunar.

Þannig leit ég á málin árið 1999, í upphafi stjórnarferils hæstv. sjútvrh., Árna Mathiesens.

Síðan tók ég saman sögu karfaveiðanna, hvernig þær hefðu gengið; sögu ufsaveiðanna, hvernig þær hefðu gengið; sögu grálúðuveiðanna, hvernig þær hefðu gengið og sögu þorskveiðanna, hvernig þær hefðu gengið. Allt fer því miður á sama veginn. Veiðin hafði dregist saman á öllum þessum stofnum. Niðurstaðan af þessari samantekt var sú að að meðaltali vantaði um 240 þús. tonn upp á að við veiddum það sama af þessum fiskstofnum, þessum botnfiskstegundum, og við öfluðum í hálfa öld þar á undan. Það er árangur kvótakerfisins, að hafa skorið niður veiðina um tæplega 240 þús. tonn eftir að kvótakerfið var tekið hér upp í samanburði við 50 ár þar á undan.

Það er ómögulegt að halda því fram að þetta sé uppbyggileg aðferð við að stjórna fiskveiðum og byggja upp fiskstofna eða að kvótakerfið hafi fært okkur bata fyrir þjóðarbúið og verið hagkvæmt, aukið verðmæti aflans, eflt atvinnu eða yfirleitt uppfyllt ákvæði í 1. gr. laga um stjórn fiskveiða, þ.e. um að tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Það væru öfugmæli. Það eru alger öfugmæli, herra forseti, og hafa sennilega sjaldan verið færð í lög önnur eins öfugmæli miðað við það sem þau hafa leitt til í fiskveiðistýringunni á undanförnum árum.

Þá langar mig aðeins að víkja að því hvernig Landssamband smábátaeigenda, samtök þeirra manna sem nú á að fara að kvótasetja og færa úr því kerfi sem þeir hafa verið í yfir í það kerfi sem meiri hlutinn vill setja þá í varðandi fiskveiðistjórnina, lýsir afstöðu sambandsins í umsögn sem barst til sjútvn.

Með leyfi forseta, þá hljóðar upphafið svo:

,,Landssamband smábátaeigenda hefur frá ársbyrjun 1999 barist gegn því að sú lagasetning sem Alþingi þá samþykkti um veiðar krókabáta kæmi til framkvæmda. Sú varð hins vegar raunin hinn 1. september sl. Löggjafarsamkoma þjóðarinnar kaus að gera ekkert til að koma í veg fyrir þann gjörning. Þessi niðurstaða er ein mestu vonbrigði sem trillukarlar hafa reynt í sinni réttindabaráttu. Eins og margsinnis hefur komið fram gerði LS samkomulag við sjávarútvegsráðherra á árinu 1996 sem lagði grunn að frekari vinnu aðila um þessi mál. Framkvæmdin rýfur í einu og öllu þá sátt sem þar skapaðist.

Mörgum kann að finnast sú staðreynd léttvæg hafi við framkvæmd laganna verið lögð sannfærandi lögfræðileg, fiskifræðileg og hagfræðileg rök. Svo er hins vegar alls ekki. Sú viðbára að stjórnkerfi krókabáta sem afnumið var 1. september sl. sé brot á stjórnarskrá lýðveldisins er fráleit og stenst enga rökræðu. LS fékk þá Sigurð Líndal lagaprófessor og Skúla Magnússon lektor til að svara nokkrum grundvallarspurningum varðandi stöðu mála í ljósi fallinna dómsmála (Valdimarsdómur 1998 og Vatneyrardómur 1999). Niðurstaða þeirra félaga er skýr og hefur í engu verið hrakin. Minnisblað sjávarútvegsráðherra vegna álitsgerðar Sigurðar og Skúla er afar veikburða og hrekur í engu niðurstöður þeirra. Í minnisblaðinu er talað undir rós um hluti sem Sigurður og Skúli afgreiða skýrt og skorinort.

Vart þarf að tíunda að fiskifræðileg rök finnast engin fyrir þessari framkvæmd. Þvert á móti er hægt að sýna fram á að efling krókaveiða er aðferð sem hægt er að beita til verndunar og viðhalds fiskstofnum. Þá hlýtur eitt af meginviðfangsefnum náinnar framtíðar að vera að skoða árangur Hafró í sögulegu samhengi.`` --- Það gerði ég hér áðan varðandi tvær fisktegundir, ýsu og steinbít.

,,Áratuga reynsla liggur nú fyrir af þeirri aðferðafræði að elta tillögur stofnunarinnar um flesta hluti. Ástand fiskstofnanna er vart hughreystandi í þessu samhengi.

Hin hagfræðilegu rök er heldur ekki að finna. Framkvæmd laganna eykur atvinnuleysi og byggðavanda ásamt því að gera atvinnutæki og eignir manna verðlausar. Þá er löngu vitað að fjölmargir þættir í rekstri smábátaútgerðarinnar eru hagkvæmari en í útgerð stærri báta og skipa. Mörgum þessara þátta er hins vegar lítill gaumur gefinn, og sumir þeirra jafnvel hafðir í flimtingum, t.d. minni olíunotkun smábáta en togara. LÍÚ-forustan hefur gert grín að þessu á opinberum vettvangi. Þá hafa útreikningar, t.d. Sjávarútvegsstofnunar Háskóla Íslands, sýnt ótvírætt að afkoma smábátaútgerðarinnar er betri en annarra útgerða.

Meginmarkmið laganna um stjórn fiskveiða koma fram í 1. gr. þeirra og óþarfi að tíunda hér. LS fær ekki með nokkru móti séð hvernig framkvæmd laganna samrýmist þessum markmiðum, né markmiðum laga um umgengni um auðlindir sjávar. Þá hafa íslensk stjórnvöld undirritað alþjóðlegar yfirlýsingar á borð við Ríó-sáttmálann en í honum er kveðið á um eflingu smábátaveiða og smárra strandveiðisamfélaga.

Það væri, í ljósi þess er hér hefur verið rakið, mun auðveldara að skilja stöðu mála, ef löggjafinn styddist í gjörðum sínum við greinilegan vilja almennings í landinu. En því er ekki að heilsa. Tvær skoðanakannanir á árinu sýna mjög afdráttarlaust að almenningur styður sjónarmið og rök smábátaeigenda og vill að löggjafinn taki til þeirra sérstakt tillit.

Með því að þvinga fram þá óþolandi stöðu sem stór hluti smábátaflotans er í eftir 1. september er eingöngu verið að þjóna þeim aðilum sem vilja smábátaútveginn feigan og eru tilbúnir að fórna miklu til að sjá þann draum sinn rætast.

Eins og fyrr segir eru vonbrigði smábátaeigenda gríðarleg með framvindu mála og þá staðreynd að ekkert hefur verið aðhafst til að nálgast þá á sáttagrundvelli. Þvert á móti hafa jafnvel verið gerðar tilraunir til að koma af stað sundrungu í þeirra röðum, tilraunir sem mistókust hrapallega.

Dagana 23. og 24. október sl. hélt LS sinn 17. aðalfund. Aðalályktun fundarins lýsir hug fundarmanna betur en margt annað og er því rituð hér í heild.``

Hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Á undanförnum árum hafa fjölmargar hinna minni strandbyggða hafið kröftuga sókn í uppbyggingu atvinnulífs og búsetu. Útgerð smábáta og umsýslan sem línuútgerð þeirra kallar á hefur leikið þar meginhlutverk. Þessi ánægjulegi viðsnúningur úr langvarandi hnignun og samdrætti gaf íbúum byggðanna von og kjark og ekki síst trú á að þau markmið sem Alþingi festi í lögin um stjórn fiskveiða hefðu, þegar upp væri staðið, dýpri þýðingu en blekið sem þau voru skrifuð með.

Þúsundir íbúa með ströndum fram hafa þar af leiðandi litið svo á að framlag kvótakerfisins til hinna minni strandbyggða sé krókakerfið, kerfi sem hefur þá sérstöðu að virkja alla bestu eiginleika smábátaútgerðarinnar og drifkraft og útsjónarsemi einstaklingsframtaksins.

Í kjölfar þessarar jákvæðu þróunar hefur hugvit og handverk fjölmargra framleiðslu- og þjónustuaðila blómstrað, jafnvel svo mynduglega að orðspor þess hefur farið langt út fyrir landsteinana.

Í einu vetfangi hefur löggjafarsamkoma þjóðarinnar umturnað þessari þróun og upprætt þá bjartsýni sem einkenndi orðið líf og störf íbúanna. Í einu vetfangi hafa eignir, atvinna og sú verðmætasköpun sem þessi þróun framkallaði orðið að engu hjá fjölmörgum smábátaeigendum, með tilheyrandi margfeldisáhrifum.

Það er með ólíkindum að á tímum þegar endalaust eru kallaðir til sérfræðingar sem meta skulu áhrif alls og einskis hafi því í engu verið sinnt að rannsaka fyrir fram áhrif þeirra lagabreytinga sem yfir dundu 1. september sl. og þýddu gríðarlegar breytingar í rekstrarumhverfi útgerðarflokks með 10 milljarða króna verðmætasköpun og gífurlega atvinnuuppbyggingu. Sú sátt sem fjölmargir töldu að væri innan seilingar er því úti í hafsauga.

Ástæða alls þessa er látlaus flótti frá þeirri staðreynd að árangur kvótakerfisins við uppbyggingu fiskstofna er hörmulegur. Við upphaf kvótakerfisins var heildarveiði fiskiskipaflotans á helstu botnlægum tegundum u.þ.b. 550 þúsund tonn en eftir þrotlaust og óeigingjarnt uppbyggingarstarf síðustu 18 ára er veiðin komin niður í 400 þúsund tonn og viðkomandi stofnar flestir í sögulegu lágmarki.

Fundurinn lýsir furðu sinni og áhyggjum af því að stjórnvöld vogi sér að halda því fram að hér séu stundaðar ábyrgar fiskveiðar sem séu öðrum til eftirbreytni.

Þvert á móti ætti helsta verkefni stjórnvalda að vera að einhenda sér í að kanna hvort ekki séu aðrar leiðir vænlegri og vill fundurinn sérstaklega benda á það fiskveiðikerfi sem Færeyingar hafa nú notað um skeið með athyglisverðum árangri.

Svo fjarri er umræðan um þessi grundvallaratriði að helst er að skilja að vandinn sem leysa þurfi sé með hvaða hætti skuli skattleggja sjávarútveginn umfram það sem nú þegar er gert. Þessu mótmælir fundurinn harðlega. Að ætla það grundvöll til sátta, að núa aukinni skattlagningu í þau sár sem nýjustu lagabreytingar eru að valda þeim strandbyggðum sem hér um ræðir, er fráleitt.

Réttindabarátta trillukarla hefur frá upphafi kvótakerfisins verið brjóstvörn hinna smærri strandbyggða. Skilningur almennings hefur verið mikill á málstað og rökum trillukarla og þakkar fundurinn þann stuðning heilshugar.

Það er höfuðkrafa Landssambands smábátaeigenda að krókaveiðar hafi skýlausan forgang við stjórn fiskveiða og að strandbyggðirnar hafi aðgang að þeim miðum sem í upphafi grundvölluðu búsetuna. Þannig er von til að sátt geti skapast milli veiðimanna og náttúru, sátt sem leiðir sjálfkrafa til friðar meðal þjóðarinnar.``

Þannig hljóðaði þessi aðalsamþykkt Landssambands smábátaeigenda. Hér er svo sem margt annað sem mætti minnast á en ég ætla að láta þetta nægja enda var þessi ályktun þeirra sem ég vitnaði til vel orðuð.

Það er ekki eins og þetta sé eina ályktunin sem okkur hefur borist hér á hv. Alþingi um það sem stjórnarflokkarnir hafa ákveðið að gera. Okkur hefur borist fjöldi ályktana. Hér er ályktun frá smábátaeigendum á Austurlandi sem ég ætla ekki að vitna sérstaklega til en gengur greinilega í sömu átt og samþykkt aðalfundar þeirra.

[24:00]

Hér er ályktun frá Hrollaugi, félagi smábátasjómanna á Hornafirði, í sömu veru, frá Snæfelli, félagi smábátaeigenda á Snæfellsnesi, sem líka gengur í sömu veru. Aðalfundur Árborgar, félags smábátaeigenda á Suðurlandi, ályktar með sams konar eða mjög svipuðum hætti og hefur sömu áherslur. Ályktun smábátaeigenda á Norðurlandi vestra kemur með sams konar áherslur og hafa birst í almennri ályktun landssambandsins. Smábátafélag Reykjavíkur ályktar í svipaða veru og þannig mætti lengi telja.

Síðan er ályktun frá sveitarstjórn Stöðvarhrepps sem ég vitnaði örstutt til í kvöld. En mig langar til að lesa hana, herra forseti, í heilu lagi. Mér finnst hún varpa mjög skýru ljósi á það sem við erum að tala um, hvaða afleiðingar þær breytingar sem meiri hlutinn ætlar að gera á fiskveiðistjórnarkerfinu, krókaveiðikerfi smábátanna, muni hafa. Með leyfi forseta vil ég fá að lesa þetta bréf frá Stöðvarhreppi til sjútvn. Alþingis. Það er sérstaklega stílað til þingmanna í Austurlandskjördæmi og Norðurlandskjördæmi eystra:

,,Í tengslum við endurskoðun á úthlutun aflamarks smábáta í öðrum tegundum en þorski og umræður um aukinn byggðakvóta vill hreppsnefnd Stöðvarhrepps koma á framfæri við sjávarútvegsnefnd Alþingis, sjávarútvegsráðherra, þingmenn Austurlandskjördæmis og Norðurlandskjördæmis eystra eftirfarandi atriðum og sýna þannig fram á hve mikilvæg smábátaútgerðin er fyrir smærri byggðarlög við sjávarsíðuna.

Á Stöðvarfirði voru á síðasta fiskveiðiári gerðir út að meðaltali fimm þorskaflahámarksbátar sem samtals skiluðu að landi ríflega 1.200 tonna afla. Eftir breytingarnar sem gerðar voru á fiskveiðikerfinu 1. september sl. var rekstrargrundvelli þessara báta nauðgað svo að tæplega verður vit í að gera út nema tvo eða þrjá af þeim bátum sem hafa skástu kvótastöðuna.

Skattskyldar launagreiðslur hjá útgerðum þessara fimm báta voru á fiskveiðiárinu 2000/2001 um 70 millj. kr., sem þýðir útsvarsgreiðslur launamanna fyrirtækjanna upp á ríflega 7,8 millj. kr. Útsvarstekjur Stöðvarhrepps á árinu 2000 voru ríflega 32,3 millj. kr. Útsvarsgreiðslur starfsmanna þessara fimm smábáta námu því 24% af heildarútsvarstekjum Stöðvarhrepps og þá er einungis verið að tala um sjómenn og beitningarfólk. Allar útsvarstekjur landvinnslu, umsýslu- og þjónustugreina sem skapast af þessum bátum eru ótaldar, en sem dæmi um útsvarstekjur af hliðargreinum má nefna að nettóútsvarstekjur sveitarfélaga af aðgerð á þessum 1.200 tonnum eru u.þ.b. ein milljón. Þá á einnig eftir að reikna tekjur hafnarinnar af þessum bátum sem voru fiskveiðiárið 2000/2001 u.þ.b. 350 þús. kr. á bát eða samtals 1.750 þús. kr., sem dugar þó varla til að dekka starfsmannahald á höfninni, hvað þá rekstur, viðhald, framkvæmdir og fjármagnskostnað.

Nú eru höfð uppi góð orð um að auka veiðiheimildir í ýsu og steinbít fyrir þennan flokk smábáta sem fyrir 1. september féllu í flokk þorskaflahámarksbáta og nota til þess til viðmiðunar veiði umræddra báta í þessum tegundum tímabilið 2000 til loka 2001. Stöðvarhreppur vill benda á að fiskveiðiárið 2000/2001 er mun eðlilegra viðmið þar sem viðskipti með báta og þar af leiðandi aflaheimildir eru alltaf miðaðar við kvótaárið en ekki brot úr tveimur kvótaárum.``

Síðan segja þeir í lok bréfsins:

,,Varðandi umræðuna um aukinn byggðakvóta til að milda áhrif kvótasetningar annarra tegunda en þorsks sem gildi tók 1. september sl. vill Stöðvarhreppur koma því á framfæri að við úthlutun og mat á því hvað mikið kemur í hlut hvers sveitarfélags verði horft fram hjá veiðiheimildum togara sem ,,lögheimili eiga`` í smáum byggðarlögum, sérstaklega þar sem svo háttar til að skip í eigu stórra útgerðarfélaga hafa heimahöfn í smáum byggðarlögum og aflaheimildirnar því lögheimili þar en skipin landa sjaldan eða aldrei í heimahöfn.``

Hér með lýkur tilvitnun í þetta bréf. Það sýnir mjög glöggt við hvað er að eiga í hinum smærri byggðum þar sem í ljós kemur að í einu litlu sveitarfélagi fyrir austan koma 24% af útsvarstekjunum beint af starfsmönnum þessara fimm báta, áhöfnum skipanna og beitningarfólki. Það munar um minna en að skera það niður um helming. En sennilega þurfa margar byggðir að standa frammi fyrir því að atvinnuréttur krókabátanna minnkar um helming í heimildum miðað við það sem bátarnir hafa verið að gera að meðaltali á undanförnum árum.

Það liggur í því að þorskkvótinn er skorinn niður almennt, ekki bara í krókakerfinu heldur í öllu kerfinu. Það er verið að minnka þorskveiðarnar um 30 þús. tonn á milli ára og voru þær þar að auki minnkaðar um 30 þús. tonn árið þar á undan. Mér hefur skilist það á útgerðum stærri skipa í aflamarkskerfinu að þeim fyndist nú bara nóg um að takast á við að þola þann samdrátt sem tvö ár í röð hefur verið bara á þorskkvótanum. Þeim finnst bara nóg um að þurfa að takast á við þann niðurskurð. Mönnum virðist hins vegar ekkert blöskra það á Alþingi að skera ýsuheimildirnar, steinbítsheimildirnar og ufsaheimildirnar niður á smábátaflotanum til viðbótar þessum tveggja ára niðurskurði í þorskveiðunum og að menn sem gera út þessa smábáta geti séð fram á að tekjur þeirra lækki um helming á milli fiskveiðiára.

Ég er hræddur um að það heyrðist aldeilis hljóð úr horni ef nú væri verið að skera almennt tekjur útgerðarinnar í landinu, upp úr og niður úr, jafnt á frystitogurum, nótaveiðiskipum og öllum minni skipum og niður í smábáta, ef allir væru að taka á sig núna 50% skerðingu. Ég er hræddur um að það mundi nú hvína í einhverjum. En það er sennilega það sem smábátamennirnir mega standa frammi fyrir og það er það sem byggðirnar mega standa frammi fyrir í tekjum mannanna varðandi útsvar og umsetningu, þjónustu, löndun og aflagjöld og annað slíkt. Þau margfeldisáhrif sem fylgt hafa öflugri smábátaútgerð og eflingu hennar á undanförnum árum eru nú tekin niður allhastarlega. Því er ekkert undarlegt þó að menn séu ekki mjög hýrir yfir því sem hv. meiri hlutinn á Alþingi ætlar að gera varðandi veiðar smábátanna.

Þess vegna lögðum við fram brtt. okkar við tillögur meiri hlutans, við frv. og brtt. hans, um að Alþingi tæki afstöðu til þess þegar kosið verður um þessar tillögur --- hvort sem það verður á morgun eða hvenær sem það verður gert --- að þá komi það fram að menn eiga valkost í hv. Alþingi. Menn eiga þann valkost að festa niður á nýjan leik þorskaflahámarkskerfið og koma í veg fyrir þennan hörkulega niðurskurð á tekjum og aflaheimildum skipanna, fólksins sem á þeim vinnur, tekjum fólksins í sjávarbyggðunum, afkomu sjávarbyggðanna. Menn geta forðast þetta slys með því að styðja brtt. sem við höfum lagt hér fram, sá sem hér stendur, hv. þm. Karl V. Matthíasson og hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson, um að krókaaflahlutdeildarkerfið verði lagt niður og þorskaflahámarkið tekið upp í staðinn, og hins vegar að fest verði útfærsla á veiðikerfi handfærabátanna á sóknardögum, sem er með mjög svipuðum hætti og í tillögu meiri hlutans vegna þess að þar leggja þeir til að það kerfi haldi áfram og að karlarnir sem voru að gera út á 40 daga með 30 tonn fái valið. Undir það tökum við í brtt. okkar, þ.e. að þeir fái að velja. En við höfnum því að farið sé í kvótasetningu á smábátaflotann.

Ég tek einnig undir þau sjónarmið þess forseta sem nú situr í stól, hv. þm. Guðjóns Guðmundssonar, að ekki er sérstök ástæða til að hafa svo ofboðslegar áhyggjur af því hvort menn veiða 5 eða 6 þús. tonnum meira af ýsu eitt árið en annað. Hafrannsóknavísindin eru ekki þau nákvæmnisvísindi sem menn hafa viljað vera láta og engin ástæða er til þess að setja landið atvinnulega allt á hvolf og stuðla að enn meiri byggðaröskun en við höfum verið að horfa upp á á undanförnum árum. Þar eigum við akkúrat að snúa við blaðinu. Við eigum að taka áhættu. Ef það kallast áhætta að veiða 5--6 þús. tonnum meira af ýsu og veiða einhver fleiri tonn af steinbít eigum við að taka áhættu til þess að viðhalda byggðinni í landinu, alveg hiklaust að mínu mati.

Ég neita því að leiðsögnin frá Skúlagötu 4, frá Hafrannsóknastofnun, eigi að vera svo stíft ráðandi að við setjum byggðina á annan endann í landinu. Engin ástæða er til þess og ég tek undir þau sjónarmið sem komu fram í ræðu hv. þm. Guðjóns Guðmundssonar áðan. Það má nefnilega nota þetta kerfi áfram sem við höfum búið við og una við það þó að við veiðum eitthvað umfram ráðleggingar, enda er ég búinn að draga það fram í þessari umræðu að það stendur til að auka við ýsukvótann þrátt fyrir að við höfum verið að veiða umfram ýsuna á síðustu tveim til þremur árum. Þannig er það, hæstv. forseti.

Þingmönnum gefst kostur á því að taka afstöðu til þessara leiða í atkvæðagreiðslu. Til þess að koma til móts við þau sjónarmið að hér beri að stýra veiðum og takmarka veiðar smábátaflotans þá leggjum við flutningsmenn þessara brtt. til að settur verði hámarksbalafjöldi í hverjum róðri hjá smábátunum á hverjum sólarhring, þ.e. 24 balar með 500 krókum, ef það mætti verða til þess að draga eitthvað úr veiðinni og ef það gæti orðið einhver sáttaleið, þó að ég persónulega hafi ekki miklar áhyggjur af því sem við höfum verið að aðhafast í veiðum á ýsu og steinbít á undanförnum árum og finni engin rök fyrir því í tillögum Hafrannsóknastofnunar, hvað þá heldur þegar litið er til þess að til stendur að auka ýsuaflann og við höfum samt verið að veiða umfram ráðleggingarnar á undanförnum árum. Það sýnir nú best í hvers konar fari við erum.

Þess vegna tek ég undir að ég tel ekki ástæðu til að taka aflaheimildir af aflamarksflotanum til þess að viðhalda því kerfi sem verið hefur við veiðar smábátanna aðrar en þær sem teknar hafa verið þar frá og við leggjum til í okkar brtt. að verði áfram teknar frá, þ.e. 3.000 tonn af ýsu og steinbít og 1.000 tonn af ufsa, ef ég man rétt, að það verði áfram tekið frá en að öðru leyti verði sá afli sem krókaflotinn veiðir tekinn utan sviga, umfram það sem þessar tölur segja og að frekar verði reynt að stýra veiðinni ef menn eru smeykir um að eitthvað sé að fara úrskeiðis, þó að það verði ekki séð í þeirri fiskveiðisögu sem ég hef rakið hér varðandi ýsuna og steinbítinn. Ef það er rétt sem virðist vera almannarómur, að til standi að auka 10.000 tonnum við ýsukvótann þrátt fyrir að við höfum veitt umfram ráðleggingar Hafró undanfarin þrjú ár, sýnir það best í hvers konar umhverfi við störfum. Ég sé enga ástæðu til að setja byggðina í það uppnám sem við erum að gera með því frv. sem hér liggur frammi, með tilliti til þess sem ég hef áður sagt um nýtingu á fiskstofnunum. Það tel ég bara óþarft.

[24:15]

Ég tel að það hefði átt að skapa trausta lagalega umgjörð um það takmarkaða veiðifrelsi sem smábátarnir hafa verið að vinna í og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Það væri verðugt markmið, herra forseti, að standa þannig að málum en við værum ekki að stuðla að því að tekjusamdráttur og atvinnumissir í sveitarfélögunum næmi tugum milljóna og tugum starfa úti um landsbyggðina, hundruðum starfa í sumum landshlutum.

Mér finnst algjörlega óásættanleg, herra forseti, sú leið sem við erum að fara í þessum málum, algjörlega óásættanleg. Það er alveg ljóst að frá 1. sept. sl. þegar kvótasetningin átti sér stað og það sem liðið er af þessu fiskveiðiári fram í desember, hefur róðralag smábátanna verið allt annað en undanfarin ár. Þetta róðralag sem stjórnvöld hafa komið á með byggðafjandsamlegum aðgerðum sínum hefur orðið til þess að atvinna við veiðar smábáta hefur snarminnkað í mörgum sjávarbyggðum landsins. Þar til viðbótar vantar nýjan fisk af dagróðrabátum til vinnslu fyrir ferskfiskmarkað innan lands sem utan. Leiguverð á ýsu og þorski hefur farið hækkandi og var þó talið allhátt fyrir 1. sept. sl.

Stjórnvöld hafa með verkum sínum unnið gegn markmiðum laga um að tryggja trausta atvinnu og byggð í landinu. Í stað þess að gera allt til varnar því að fólk fari af landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins stefna aðgerðirnar gegn smábátaútgerðinni og fólkinu í sjávarbyggðum landsins. Ég tel að mál sé að snúa af þessari óheillabraut.

Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu en legg áherslu á að sennilega á morgun kjósa menn í hv. Alþingi um hvort hér eigi að standa að áframhaldandi byggðaröskun, minnkandi atvinnu úti um land, fækkandi störfum og að ýtt verði undir að fólk flytji af landsbyggðinni. Ég tel mig hafa sýnt fram á það í málflutningi mínum að ekki væri mikil áhætta tekin með ýsuveiðum krókabátanna eða steinbítsveiðum krókabátanna. Þess vegna verð ég að segja að lokum, herra forseti, að mér er algjörlega fyrirmunað að skilja hvers vegna landsbyggðarþingmenn stjórnarflokkanna fara þessa leið. Mér er algjörlega fyrirmunað að skilja það. Í framtíðinni hljóta þeir að verða krafðir sagna um það hvers vegna þeir ákveða með gjörðum sínum að vega enn einu sinni að störfum og uppbyggingu úti á landi.