Tillögur byggðanefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga

Fimmtudaginn 13. desember 2001, kl. 10:13:41 (3144)

2001-12-13 10:13:41# 127. lþ. 52.1 fundur 250. mál: #A tillögur byggðanefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 127. lþ.

[10:13]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Það er alveg rétt að sameining sveitarfélaganna færir þeim ekki nýtt fjármagn nema í undantekningartilfellum. En ég vil vekja athygli á því að við höfum breytt reglum jöfnunarsjóðs þannig að þær eiga ekki að standa í vegi fyrir sameiningu eins og þær gátu reyndar gert í einstökum tilfellum áður en þeim var breytt.

Spurt hefur verið um færslu grunnskólans. Ríkið stóð fyllilega við þann samning sem gerður var og sveitarfélögin höfðu betur en fyrir kostnaði við grunnskólann í fyrstu lotu. Síðan hefur námskrá verið breytt og skóladögum fjölgað. Það mál er óleyst. Sveitarfélögin hafa gert kröfu á ríkisvaldið sem það hefur ekki brugðist við enn þá a.m.k.

Ég tel að langeðlilegast sé að það sé val fólksins hvort það vill sameina sveitarfélögin í þeirri von að fá bætta þjónustu, í þeirri von að fá fleiri verkefni eða hvort það vill una við eitthvað fábreyttari þjónustu sem það býr við í minni sveitarfélögunum og leggja þá e.t.v. ekki jafnmikið undir eða kosta jafnmiklu til.

Varðandi hvaða verkefni sveitarfélögin geta tekið að sér af nærþjónustu þá er ég alveg sammála því að æskilegt er að sveitarfélögin taki við verkefnum. En ég minni á að þegar við ræddum í fyrra og á undanförnum árum um færslu málefna fatlaðra til sveitarfélaganna þá strandaði það á stóru sveitarfélögunum, ekki á litlu sveitarfélögunum.