Aðstoð við fatlaða vegna orlofsdvalar eða ferðalaga

Fimmtudaginn 13. desember 2001, kl. 10:19:04 (3146)

2001-12-13 10:19:04# 127. lþ. 52.2 fundur 256. mál: #A aðstoð við fatlaða vegna orlofsdvalar eða ferðalaga# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 127. lþ.

[10:19]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Starfshópurinn sem samdi umrædda skýrslu fékk það verkefni að kanna á hvern hátt fatlaðir geti notið sumarleyfa, tómstunda, lista- og menningarlífs á sama hátt og aðrir þjóðfélagsþegnar. Hann lagði fram vandaða skýrslu sem beinist að ráðuneytum, sveitarfélögum og ýmsum stofnunum. Félmrn. sendi þessa skýrslu til allra þeirra ráðuneyta sem tillögur starfshópsins beindust að. Það eru menntmrn., dóms- og kirkjumrn., samgrn. og umhvrn. Þetta var gert til að vekja athygli hvers ráðuneytis um sig sérstaklega á því sem að því sneri.

Nokkuð er liðið frá því að skýrslan var samin og sumt af því sem bent er á að betur megi fara hefur þegar verið bætt. Meðal annars gerði menntmrn. samantekt um aðgengi fatlaðra á menningarstofnunum. Það var unnið á vegum ráðuneytisins 1999. Félmrn. hefur reyndar ekki fylgt þessu nánar eftir varðandi viðkomandi ráðuneyti.

Svæðisskrifstofunum um málefni fatlaðra var að sjálfsögðu einnig send skýrslan og tilmælum beint til þeirra að taka tillit til þess sem við ætti í störfum þeirra. Ráðuneytið kannaði hjá svæðisskrifstofunum hvernig þessum málum væri háttað hjá þeim. Það kom fram hjá svæðisskrifstofunum að þær telja sig ekki hafa yfir að ráða fjármagni til að greiða kostnað aðstoðarmanns með fötluðu fólki á ferðalagi enda er ekki kveðið á um slíka þjónustu í lögum. Nokkur dæmi eru um að slíkt hafi verið gert þegar fólk hefur ferðast eitt. Íbúar sambýla fólks með fötlun sem rekin eru í umsjón svæðisskrifstofanna hafa iðulega skipulagt ferðalög og þá fara starfsmenn með í þær ferðir. Rétt er að hafa í huga í þessu sambandi að fólk með fötlun á sama rétt og aðrir til þjónustu og þátttöku í samfélaginu. Í lögum um málefni fatlaðra er kveðið á um að fatlaðir eigi rétt á allri almennri þjónustu ríkis og sveitarfélaga og ávallt skuli leitast við að veita fötluðum þjónustu samkvæmt almennum lögum á sviði menntunar-, heilbrigðis- og félagsþjónustu.

Það er stefna félmrn. að leitast við að tryggja fötluðum þjónustu og aðstoð á sama vettvangi og öðrum íbúum landsins. Þetta samræmist alveg vilja hagsmunasamtaka fatlaðra svo sem Þroskahjálpar, með öðrum orðum snýst þetta um blöndun ófatlaðra og fatlaðra og samþættingu þjónustu. Þjónusta sveitarfélaganna er náttúrlega mikilvæg í þessu sambandi.

Ekki liggja fyrir skýrar upplýsingar um umfang ferðaþjónustunnar á landsvísu. Það hefur verið ákveðið í félmrn. að gera á vegum sveitarfélaga sérstaka úttekt á ferðaþjónustu og liðveislu við fólk með fötlun.

Þá er spurt hvort gerð hafi verið úttekt á orlofshúsnæði og umhverfi þess með tilliti til aðgengis fatlaðra. Í undirbúningi er stofnun vinnuhóps í félmrn. og umhvrn. sem á að vinna sameiginlega að stefnumótun og eftirliti með aðgengi fatlaðra. Samkvæmt skipulags- og byggingarlögum skal í byggingarreglugerð mælt fyrir um kröfur sem gera skal til hönnunar mannvirkja varðandi aðgengi fatlaðra. Segja má að umhvrn. hafi möguleika á að fylgja þessum málum eftir í samræmi við byggingarreglugerð í gegnum Skipulagsstofnun og eftirlit með byggingarnefndum.

Þá er spurt hvort ég muni beita mér fyrir því að kostnaður aðstoðarmanns fatlaðra sem dvelja í orlofshúsnæði eða ferðast innan lands eða utan verði greiddur úr opinberum sjóðum. Það er ekki lagaskylda fyrir því en dæmi eru um að þetta hafi verið gert. Þetta er hins vegar spurning um forgangsröð. Það er margt sem liggur á að gera í málefnum fatlaðra og í mörgum tifellum sér maður brýnni verkefni en þetta.

Þá er spurt hvort ráðherra hafi beitt mér fyrir því að komið verði á fót fræðslunámskeiðum fyrir fólk sem tekur að sér starf aðstoðarmanns fatlaðra í orlofsdvöl eða á ferðalagi og ef svo sé, hvenær megi vænta þess að slík námskeið hefjist og hver muni bera kostnaðinn. Starfshópurinn lagði þetta til í skýrslu sinni og þar kemur einnig fram að Sjálfsbjörg hafi staðið að fræðslunámskeiðum fyrir aðstoðarmenn og þau hafi gefið góða raun. Það kemur að mínu mati vel til greina að styðja samtökin að einhverju marki til að halda þessi námskeið áfram enda er mikilvægt að þarna sé fyrir hendi kunnátta og þekking. Ég held að þetta yrði að vera samstarfsverkefni samtaka fatlaðra, svæðisskrifstofa og sveitarfélaga ef til kæmi.