Biðlisti eftir þjónustu svæðisskrifstofa málefna fatlaðra

Fimmtudaginn 13. desember 2001, kl. 10:36:44 (3152)

2001-12-13 10:36:44# 127. lþ. 52.3 fundur 300. mál: #A biðlisti eftir þjónustu svæðisskrifstofa málefna fatlaðra# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi JB
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 127. lþ.

[10:36]

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og tek undir með ráðherranum um hversu mikilvægt það er að koma til móts við þessa þjóðfélagsþegna af fullri reisn og myndugleika og ekki hvað síst líka að standa við þær áætlanir sem gerðar eru, bæði í tíma og framkvæmd. Það er afar mikilvægt því að óvissan í úrlausnum á þessum málum er einna erfiðust.

Mér fannst mjög alvarlegt að heyra þá stöðu sem hann gat um, að enn hefði svo stór hópur einstaklinga enga ákveðna fasta þjónustu, og ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. ráðherra: Er ekkert verið að gera akkúrat í því?

Ég vil svo enn fremur ítreka spurningar mínar um hvað líði því að standa við þá áætlun sem þarna var lagt upp með, annars vegar um útvegun á fjármagni til næstu fimm ára frá árinu 2000 til þess að ná árangri í að útrýma biðlistum og koma með aukið húsnæði. Það er svo að fjármagnið skiptir máli og hvernig hefur verið staðið við það, bæði í fyrra og í ár og á næstu árum, til þess að áætlanir standist?

Mér finnst í sjálfu sér skynsamlegt við svo brýnar aðstæður sem hæstv. ráðherra undirstrikaði að verja þessum 25 millj. kr. til skammtímavistunar og bráðaúrlausna hvað það varðaði, en þetta er bara tekið að láni hjá Framkvæmdasjóði aldraðra og verður að standa aftur skil á því þannig að hérna er fyrst og fremst um bráðaaðgerð að ræða en ekki varanlega fjármuni inn í málaflokkinn.

Herra forseti. Ég vil bara ítreka hversu mikilvægt það er að standa að þessum málum af fullri reisn og öryggi. Óvissan er það versta í uppbyggingu á þessari þjónustu.