Málefni fatlaðra

Fimmtudaginn 13. desember 2001, kl. 10:41:19 (3154)

2001-12-13 10:41:19# 127. lþ. 52.4 fundur 301. mál: #A málefni fatlaðra# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi JB
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 127. lþ.

[10:41]

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason):

Herra forseti. Ég vil aftur bera fram fyrirspurn til hæstv. félmrh. um málefni fatlaðra:

Hvað líður endurnýjun samninga við félagasamtök og sveitarfélög sem veita fötluðum þjónustu samkvæmt lögum um reynslusveitarfélög og lögum um málefni fatlaðra?

Eins og við vitum hefur á undanförnum missirum og árum færst í vöxt að gerðir væru samningar við einstaka aðila, félagasamtök og sveitarfélög, um að taka að sér að veita lögboðna þjónustu í umboði ríkisins. Sem dæmi um það eru t.d. Styrktarfélag vangefinna og svæðisfélögin á Norðvestur- og Norðausturlandi og reynslusveitarfélögin á Akureyri, Hornafirði og í Vestmannaeyjum.

Samningar þessir renna út, held ég, flestir eða allir um næstu áramót og því ekki seinna vænna að ganga frá samningum við þessa aðila ef samstarfið á að halda áfram. Það hefði verið eðlilegt að allir þessir samningar hefðu legið fyrir eða ákvörðun um framkvæmd þessara mála á næsta ári áður en fjárlög voru afgreidd nú í haust og þar með hefði líka verið hægt að taka tillit til þess við ákvörðun á útgjöldum af ríkisins hálfu til málaflokksins. En nú hafa fjárframlögin til málaflokksins verið ákveðin þannig að samningar við þessa aðila verða að snúast um hversu mikla þjónustu þessir aðilar geta veitt og fyrir það fjármagn sem er til ráðstöfunar eða þá að ríkið taki að sér málaflokkinn til baka. Ég vil því aftur inna hæstv. félmrh. eftir hvað líði endurnýjun á þessum samningum.

Í öðru lagi leyfi ég mér að spyrja hæstv. félmrh.: Hvað líður úrlausn á brýnum húsnæðisvanda fatlaðra einstaklinga sem enn búa á Kópavogshæli? Því hefur margítrekað verið lýst yfir á hinu háa Alþingi að leysa ætti úr vanda þeirra íbúa sem þar eru, og þeir ættu fyrir löngu síðan að vera komnir út úr því húsnæði enda hefur því lítið verið haldið við og dvöl þeirra þar ekki nein framtíðarlausn, og fjarri því. Í gangi hafa verið umræður, viðræður og samningar milli félmrn. og heilbrrn. um að félmrn. yfirtæki þessi verkefni og veitti því úrlausn. Það er ótækt að þessir einstaklingar skuli verða að bíða í svo mikilli og stöðugri óvissu um úrlausn mála sinna sem raun ber vitni. Ég leyfi mér því, herra forseti, að ítreka: Hvernig standa mál varðandi bráða úrlausn þeirra íbúa sem enn eru á Kópavogshæli og hefur löngu verið lofað að fengju aðra úrlausn en vera þar áfram?