Málefni fatlaðra

Fimmtudaginn 13. desember 2001, kl. 10:44:14 (3155)

2001-12-13 10:44:14# 127. lþ. 52.4 fundur 301. mál: #A málefni fatlaðra# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 127. lþ.

[10:44]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Samningar við sveitarfélög um þjónustu við fatlaða eru annars vegar á grundvelli laga um reynslusveitarfélög og hins vegar á grundvelli laga um málefni fatlaðra. Akureyrarkaupstaður og Vestmannaeyjabær tóku að sér þjónustu við fatlaða sem reynslusveitarfélög en samningar ráðuneytisins við sveitarfélagið Hornafjörð, byggðasamlag um málefni fatlaðra á Norðurlandi vestra og héraðsnefnd Þingeyinga eru á hinn bóginn með heimild í lögum um málefni fatlaðra.

Á fjárlögum ársins 2001 eru ætlaðar 600 millj. til þessara samninga. Sú fjárhæð er um 16% af þeirri fjárhæð sem fjárlög ársins ætla til málaflokksins. Af íbúum landsins búa rúm 15% í þeim sveitarfélögum sem samningarnir ná yfir þannig að það er aðeins betur í lagt en landsmeðaltal segir til um.

Um næstu áramót renna lögin um reynslusveitarfélög úr gildi og þau verða ekki framlengd. Áfram mun gilda heimild í lögum um málefni fatlaðra til að ganga til samninga við sveitarfélög og félagasamtök um þjónustu við fatlaða. Ég hef lýst vilja mínum til að endurnýja þessa samninga við sveitarfélögin og samtök fatlaðra á grundvelli þeirrar heimildar og samninga til allt að fimm ára. Vinna við þessa samninga hófst í haust en hefur dregist á langinn vegna mats á áhrifum kjarasamninga sem launanefnd sveitarfélaga gerði fyrir hönd sveitarfélaganna við félög innan starfsgreinasambandsins. Þess er að vænta að niðurstaða fáist í þetta mál á næstu dögum og það er mjög brýnt að fá niðurstöðu til að sjá hvar ábyrgðin liggur og hver kemur til með að sjá um þetta í náinni framtíð.

Félmrn. kemur að nokkrum samningum með svæðisskrifstofum um málefni fatlaðra við sjálfseignarstofnanir og félagasamtök vegna þjónustu við fatlaða, og vinna við þá samninga er í gangi.

Þá er spurt um Kópavogshælið. Fyrir liggja drög að samkomulagi milli félmrn. og heilbrrn. um yfirtöku félmrn. á þjónustu við 20 íbúa Kópavogshælis sem búa í fjölbýlishúsi á lóð heimilisins í Kópavogi. Reyndar eru fjögur sambýli til húsa í þessari blokk. Samkomulagið gerir ráð fyrir því að íbúarnir flytjist í sambýli á höfuðborgarsvæðinu og að þeim flutningi verði lokið á næsta ári fáist til þess nægilegt fjármagn. Fullkomin ástæða er til að vænta þess að fjármagn fáist til að ganga frá þeim samningi og efna hann.

Þá er því við að bæta að fyrir utan þessa 20 búa 15--17 manns á Kópavogshæli sem að mati starfsmanna þar gætu nýtt sér búsetu á sambýlum. Ekki er hægt að fallast á að sá hópur búi við brýnan húsnæðisvanda eins og e.t.v. mætti skilja á fyrirspurninni. Allur aðbúnaður þess fólks er til fyrirmyndar á Kópavogshæli. Horft til framtíðar er hins vegar eðlilegt að íbúunum verði fundin búseta utan stofnunarinnar.