Málefni fatlaðra

Fimmtudaginn 13. desember 2001, kl. 10:49:01 (3157)

2001-12-13 10:49:01# 127. lþ. 52.4 fundur 301. mál: #A málefni fatlaðra# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi JB
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 127. lþ.

[10:49]

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þau svör sem eru komin en lít svo á að þau vinnubrögð séu alveg ótæk að ekki skuli enn vera búið að ganga frá samningum um svo mikilvægan málaflokk eins og hver eigi að annast þessi verkefni, þjónustu við fatlaða á vegum Styrktarfélags vangefinna, á vegum sveitarfélaganna sem eru með þessi verkefni. Og þetta er að gerast núna um næstu áramót. Bæði starfsfólk og það fólk sem nýtur þessarar þjónustu stendur áfram í fullkominni óvissu.

Mér er kunnugt um að samningar eða samningaviðræður við suma þessara aðila eru varla komnar í gang. Það eru að koma áramót þannig að ég held að hæstv. félmrh. megi heldur betur slá í Skjóna til að þetta verði komið í viðunandi horf um áramót, ekki seinna. Ég legg áherslu á það.

Hitt er líka, eins og hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir kom inn á, alveg ótækt varðandi stöðu íbúa á Kópavogshæli sem þurfa á brýnni úrlausn að halda, að stöðugt er sagt að fyrir liggi samningsdrög og samningsdrög, en síðan er ekkert gert. Um hvað er ágreiningur? Snýst ágreiningurinn kannski um sölu á húsnæðinu eða hvernig eigi ráðstafa peningum fyrir sölu húsnæðis, eða um hvað er að ræða? Á meðan svo er, á meðan enn er togast á um þetta, bíður þetta fólk. Það er búið að bíða mánuðum saman eftir úrlausn. Ég skora því á hæstv. félmrh. að ganga í þetta og leysa þetta, ekkert að vera að draga þetta lengur en til dagsins í dag.