Málefni fatlaðra

Fimmtudaginn 13. desember 2001, kl. 10:51:01 (3158)

2001-12-13 10:51:01# 127. lþ. 52.4 fundur 301. mál: #A málefni fatlaðra# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 127. lþ.

[10:51]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Rétt er að taka fram að þessir 20 íbúar á Kópavogshæli í blokkinni eru komnir í umsjá svæðisskrifstofunnar á Reykjanesi og njóta sömu eða hliðstæðrar þjónustu þaðan og hafa sama rétt og aðrir skjólstæðingar svæðisskrifstofunnar.

Fjármagn til rekstrar á þessum sambýlum flyst að hluta til frá heilbrrn. Söluandvirði blokkarinnar gengur að þremur fjórðu hlutum til félmrn. til að koma þeim einstaklingum í hús. Við reiknum með því að taka húsnæði á leigu frá Öryrkjabandalaginu að einhverju leyti, en það vantar enn þá nokkuð á að séð sé fyrir öllum rekstrarkostnaði og öllum kostnaði sem af þessu hlýst. En ég vænti þess að úr því rætist innan fárra daga.

Varðandi hina samningana er rétt að þeir hafa dregist og það hefði verið þægilegra ef þeir væru allir í höfn. En komið hafa upp vandamál í sambandi við laun því að launanefnd sveitarfélaga hefur samið um miklu hærri laun en gilda hjá ríkinu. (JB: Tekur ríkið þá yfir ef ekki semst?) Það liggur fyrir að ef ekki er hægt að gera þjónustusamninga verður ríkið að taka við. Ég vona sem sagt að samningar takist og til þess þurfi ekki að koma.