Alnæmi og kynsjúkdómar

Fimmtudaginn 13. desember 2001, kl. 11:02:31 (3162)

2001-12-13 11:02:31# 127. lþ. 52.5 fundur 295. mál: #A alnæmi og kynsjúkdómar# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., RG
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 127. lþ.

[11:02]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Hér er hreyft mjög alvarlegu máli sem við eigum að ræða og reyna að finna betri lausn á og ég ætla að blanda mér í umræðuna út af alnæminu. Ég held að við höfum ekki haldið rétt á málum varðandi aukið smit. Fólk telur sér trú um að það séu einhverjir aðrir sem muni smitast. Fólk telur sér trú um að sérstakir hópar séu í hættu. En það er ekki svoleiðis. Gagnkynhneigt fólk smitast. Ungt fólk fer að vera saman og annar aðilinn reynist smitaður frá fyrri kynnum og skaðinn er skeður. Enn þá alvarlegra er ef t.d. smitaður einstaklingur, ungur maður flögrar á milli ungra stúlkna og skilur eftir sig slóð sársauka og skelfingar. Þegar fólk hefur orðið fyrir smiti þá tekur við ævilöng lyfjameðferð með tilheyrandi afleiðingum og erfiðleikum, eins og hefur komið fram hjá sóttvarnalækni. Ég held að við þurfum að finna leiðir til að stöðva það að smitaðir einstaklingar geti bara látið eins og ekkert sé og dregið aðra með sér út í sorg og sársauka.