Alnæmi og kynsjúkdómar

Fimmtudaginn 13. desember 2001, kl. 11:04:05 (3163)

2001-12-13 11:04:05# 127. lþ. 52.5 fundur 295. mál: #A alnæmi og kynsjúkdómar# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 127. lþ.

[11:04]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra þau svör sem hér komu fram. Það fór eins og ég hafði reyndar heyrt frá sóttvarnalækni og landlæknisembættinu að tilfellum þeirra sem smitast af kynsjúkdómum og fyrst og fremst klamýdíu hefur fjölgað gífurlega á undanförnum árum. En það hefur einnig verið um ákveðna fjölgun þeirra sem eru HIV-smitaðir að ræða. Fjárveitingin var 1997 tæpar 10 millj. kr. Það er ekki bara það að hún hafi ekki fylgt verðlagi heldur hefur hún lækkað verulega og við erum að tala um tæpar 6 millj. kr. núna til slíkrar fræðslu- og forvarnastarfsemi.

Þar gegnir heilsugæslan auðvitað mjög stóru og á að gegna mjög stóru hlutverki. Ég held að það sé vissulega nauðsynlegt fyrir okkur að taka þátt í þessari baráttu á alþjóðavettvangi en fyrst og fremst þurfum við þá að sýna gott fordæmi hér heima og auka fjárveitingar eða leggja aukna áherslu á forvarnastarfsemina og fræðsluna vegna þess að reynslan frá 1997 segir okkur að pottur er brotinn og það verður að taka mun betur á heldur en gert hefur verið. Það eru í sjálfu sér ekki stórar fjárhæðir, um 6 millj. kr. til slíkrar fræðslu. Ég hvet hæstv. ráðherra til þess ef eitthvað er eftir af óráðstöfuðu fjármagni í heilbrrn. sem er þó örugglega af skornum skammti, að styrkja landlæknisembættið og sóttvarnalækni til að koma á öflugu forvarna- og fræðslustarfi í þessum efnum.