Mat á umhverfisáhrifum skógræktarverkefna

Fimmtudaginn 13. desember 2001, kl. 11:32:02 (3175)

2001-12-13 11:32:02# 127. lþ. 52.7 fundur 323. mál: #A mat á umhverfisáhrifum skógræktarverkefna# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi KolH
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 127. lþ.

[11:32]

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. umhvrh. svörin og vil taka fram til að taka af allan vafa um sjónarmið mín í þessum málum að ég er í grundvallaratriðum afskaplega hlynnt landvernd og jarðabótum, en ég tel algjörlega nauðsynlegt að meta áhrif slíkra athafna mannsins og að gerðar verði um slík verkefni langtímaáætlanir með skilgreindum markmiðum. Ég tel að Alþingi Íslendinga, sérfræðingar á sviði skógræktarmála og landgræðslu og almenningur eigi að eiga aðgang að þeim upplýsingum sem í slíkum landgræðslu- og skógræktaráætlunum felast.

Það verður ekki gert með prívatfundum skipulagsstjóra og skógræktenda þó að ég efist ekki um að það sé gaman á þeim fundum eða vel sé að verki staðið og allir séu að gera sitt besta. Eins og tilskipunin sem hæstv. ráðherra gat um í máli sínu ber með sér hefur samfélag þjóða komið sér saman um að í skógræktaráætlunum skuli farið að ákveðnum reglum, og þær reglur hafa verið samræmdar og Íslendingar eru að undirgangast þær reglur eftir tvö og hálft ár samkvæmt því sem hæstv. umhvrh. sagði.

En þá verðum við kannski búin að binda stærstu landsvæði okkar sem verða ræktuð skógi áður en mat á umhverfisáhrifum þeirra framkvæmda getur farið fram. Og ég spyr hæstv. umhvrh.: Hvað finnst henni um það að allar skógræktaráætlanir verði kannski bara runnar hjá þegar tilskipunin verður að veruleika fyrir okkur Íslendinga?

Ég ítreka að formlegt ferli hleypir öllum að málunum og ég er ekki að kasta neinni rýrð á þau verkefni eða það fólk sem stendur að þeim verkefnum sem nú eru til staðar, og mér þykir miður að heyra hv. þm. Ísólf Gylfa Pálmason kalla slíkt formlegt skipulag sovétskipulag.