Virkjanaleyfi

Fimmtudaginn 13. desember 2001, kl. 11:45:10 (3179)

2001-12-13 11:45:10# 127. lþ. 52.8 fundur 334. mál: #A virkjanaleyfi# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 127. lþ.

[11:45]

Fyrirspyrjandi (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin sem ég tel að hafi skýrt málið nokkuð. Ég er sammála því að það þarf að vanda sig þegar farið er út í smávirkjanir. Þó að orðið ,,smátt`` virðist í hugum sumra vísa til þess að það sé líka fagurt er ég nú ekki viss um að margar smávirkjanir hafi í för með sér minni umhverfisáhrif en ein stærri. Jafnframt tel ég mikilvægt að þeir sem ætla sér að ráðast í fjárfestingar af þessu tagi standist tilteknar kröfur bæði varðandi faglegan undirbúning og þá ekki síður hitt að fyrir verkefninu sé raunverulegur rekstrargrundvöllur.

Auðvitað er það svo, þegar gefnar eru væntingar eða ýtt undir þann hug sem ýmsir hafa í þessum efnum, að mönnum finnst ekki nógu hratt farið og ætlast kannski til þess að fyrirgreiðsla hins opinbera sé önnur og meiri en hún reynist síðan vera þegar til kastanna kemur.

Mér fannst skýrslan sem hv. þm. Gunnar Pálsson spurðist fyrir um efndir á hér á fyrirspurnafundinum 14. nóv. síðastliðinn vera dálítið hrá, lítt útfærð og í rauninni gefa undir fótinn með meira en ég gat séð fyrir að hægt yrði að standa við í fljótu bragði. Þar af leiðandi held ég að hún hafi verið svona dálítið erfitt innlegg inn í þessa umræðu af því hún var svo stutt unnin.

Hins vegar sýnist mér að ef þessi ráðgjafahópur, sem er þá líklega hinn sami og hæstv. ráðherra kallar stýrihóp, kemst í þokkalegan gang ætti að vera hægt að gera ráð fyrir því að þessi mál fari að ganga eðlilegar fyrir sig og óþreyja manna minnki í hlutfalli við það.