Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 13. desember 2001, kl. 12:23:07 (3182)

2001-12-13 12:23:07# 127. lþ. 53.1 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv. 129/2001, ÁSJ (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 127. lþ.

[12:23]

Árni Steinar Jóhannsson (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Á þskj. 541, þar sem flm. eru Guðjón A. Kristjánsson, Karl V. Matthíasson og Árni Steinar Jóhannsson, eru gerðar brtt. við það frv. sem hér er til umfjöllunar. Við höfnum kvótasetningu smábáta og viljum forða sjávarútveginum, smábátaþætti sjávarútvegsins, frá því hervirki sem er verið að vinna hér. Þetta er engin lausn fyrir byggðir landsins, en það er stefna stjórnvalda eða hugsun stjórnvalda að verið sé að bjarga byggðarlögunum með þessari aðgerð sem hér er verið að setja í gang. Framhaldið mun sýna að verði frv. að lögum þá kallar það fram meiri vandræði fyrir sjávarbyggðir landsins en þær standa frammi fyrir eins og málum er háttað nú.

Eins og fram kom í umræðunni viljum við heilsteypta lausn á grunni þeirrar sýnar sem flokkarnir hafa hver um sig í sjávarútvegsmálum. Við viljum vinna að heilsteyptri lausn. En eins og fram hefur komið stefnir ríkisstjórnin í plástra\-lausnir hér og þar með pottum og byggðakvótum þannig að hæstv. sjútvrh. geti slökkt elda þegar þeir koma upp reglulega í þessari merkustu og mikilvægustu atvinnugrein þjóðarinnar.

Hæstv. forseti. Ég vonast til þess að sem flestir þingmenn sjái sér fært að greiða brtt. brautargengi þannig að við forðum okkur frá vinnubrögðum af því tagi sem hér eru í uppsiglingu.