Ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002

Fimmtudaginn 13. desember 2001, kl. 15:12:29 (3200)

2001-12-13 15:12:29# 127. lþ. 54.4 fundur 348. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002# (breyting ýmissa laga) frv. 148/2001, SAÞ
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 127. lþ.

[15:12]

Sigríður A. Þórðardóttir:

Herra forseti. Ég vil gera skrásetningargjöld við Háskóla Íslands, Háskólann á Akureyri og Kennaraháskólann að sérstöku umtalsefni við þessa umræðu um ráðstafanir í ríkisfjármálum en lagt er til að þau verði hækkuð um 7.500 kr., úr 25.000 í 32.500 kr..

Ég legg sérstaka áherslu á að skrásetningargjaldið er þjónustugjald. Því er ætlað að standa undir margvíslegri þjónustu við stúdenta sem verður sífellt umfangsmeiri og kostnaðarsamari, t.d. skráningu þeirra í námskeið og próf, varðveislu upplýsinga um námsferil, upplýsingum um námsferil sem stúdentum eru sendar þrisvar á hverju háskólaári, auglýsingum og miðlun upplýsinga vegna skráningar, skipulagi kennslu og prófa, kennsluskrá, stúdentaskírteini og aðgangi að þjónustu nemendaskrár, skrifstofum kennslusviðs, deildaskrifstofum, alþjóðaskrifstofum, upplýsingastofu um nám erlendis, námsráðgjöf, bókasafni og tölvum og prenturum skólanna.

Rétt er einnig að geta þess að hluti af skrásetningargjaldinu rennur til félagsstarfs stúdenta. Við Háskóla Íslands eru það t.d. 13% eða 3.250 kr. sem renna til Félagsstofnunar stúdenta.

Sú þjónusta sem Háskóli Íslands veitir nemendum og fjármögnuð er með skrásetningargjöldum er mun dýrari en nemur tekjum af gjöldunum í dag. Þetta legg ég áherslu á.

Í nál. meiri hluta menntmn. um frv. til laga um háskóla, 9. des. 1997, segir, með leyfi forseta:

,,Nokkrar umræður urðu í nefndinni um 3. mgr. 19. gr. frumvarpsins þar sem fjallað er um gjaldtöku af nemendum. Meiri hlutinn ítrekar að hér er um rammalöggjöf að ræða og er það skilningur hans að með gjaldtöku af nemendum í ríkisháskólum sé átt við gjaldtöku vegna þeirrar þjónustu sem nemendum er veitt.``

Skrásetningargjöldin hafa hækkað mjög lítið á síðasta áratug og því hefur orðið skerðing á þeim fjármunum sem ríkisháskólar hafa haft til ráðstöfunar í samræmi við það. Hækkunin nú er eingöngu 30%. Ég endurtek: Hækkunin nú er eingöngu 30% og er þess vegna minni en verðlagsþróun gefur tilefni til.

Rétt er líka að það komi fram í þessari umræðu að skrásetningargjöld við háskólana eru ekki ný af nálinni, þau hafa verið innheimt frá upphafi.