Ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002

Fimmtudaginn 13. desember 2001, kl. 15:17:42 (3202)

2001-12-13 15:17:42# 127. lþ. 54.4 fundur 348. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002# (breyting ýmissa laga) frv. 148/2001, SAÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 127. lþ.

[15:17]

Sigríður A. Þórðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Það er nú einmitt það sem verið er að gera. Það er verið að gæta samræmis á milli skólanna þannig að fullt jafnræði sé með nemendum sem stunda nám í þessum þremur háskólum, þ.e. Háskóla Íslands, Háskólanum á Akureyri og Kennaraháskólanum. Því er verið að innheimta sömu gjöld af nemendum.

Það er rétt að ég rifji það upp að það var að sjálfsögðu litið til þess, þegar skrásetningargjaldið á nemendur í Kennaraháskólanum var ákvarðað á sínum tíma hvert gjaldið væri við Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri. Hins vegar var lögum um Háskóla Íslands breytt árið 1996 í kjölfar álits umboðsmanns og þá var sett inn upphæðin 24 þús. kr. sem síðar var svo breytt þegar nýja löggjöfin um Háskóla Íslands var samþykkt og það var líka gert í kjölfarið á rammalöggjöf um háskóla.