Ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002

Fimmtudaginn 13. desember 2001, kl. 15:21:56 (3205)

2001-12-13 15:21:56# 127. lþ. 54.4 fundur 348. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002# (breyting ýmissa laga) frv. 148/2001, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 127. lþ.

[15:21]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Hv. formaður menntmn. klifar á því að hér sé einungis verið að hækka skráningargjöldin um 30% og að það haldi ekki í við verðlagshækkanir. Miðar þá hv. þm. við árið 1991 þegar skráningargjöldin voru hækkuð verulega.

Nú liggur fyrir, herra forseti, að árið 1999 voru skráningargjöldin ákveðin 25 þús. kr. Rökstuðningur þeirrar hækkunar var að verið væri að færa gjöldin til rétts verðlags. Þau rök hv. þm. að hér megi nú í dag reikna verðlagshækkun aftur til 1991 standast engan veginn skoðun. Það er í hæsta lagi hægt að færa rök fyrir því að breyta þurfi gjöldunum miðað við verðlag frá 1999 þegar gjöldin voru síðast hækkuð með lögum.

Ég vil spyrja hv. þm. hvernig hún leyfi sér að rökstyðja þetta með verðlagshækkunum frá 1991 þegar fyrir liggur að 1999 voru gerðar verðlagshækkanir á gjöldunum.