Ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002

Fimmtudaginn 13. desember 2001, kl. 15:39:54 (3210)

2001-12-13 15:39:54# 127. lþ. 54.4 fundur 348. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002# (breyting ýmissa laga) frv. 148/2001, ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 127. lþ.

[15:39]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. talar um vægt daggjald á sjúkrahótelum sem er verið að leggja hér á. Það stendur til að leggja á 700 kr. gjald á dag. Gjaldið hefur verið innheimt án heimildar frá áramótum og þangað til 1. okt. þegar því var hætt er menn gerðu sér grein fyrir því að það var ekki heimild fyrir því. Hvaða fólk er á þessum sjúkrahótelum? Einn þriðji eru aldraðir hér á höfuðborgarsvæðinu sem ekki geta farið heim til sín, eins og hv. þm. nefndi dæmi af. Aðrir eru af landsbyggðinni eða tveir þriðju. Þetta er fólk sem er að reka heimili heima hjá sér annars staðar, þarf að borga þar reikninga sína, hita, rafmagn og allt það sem tilheyrir rekstri heimilis. Ég nefni það sem dæmi. Fólk er að borga hér 21.000 kr. fyrir dvölina á sjúkrahótelinu. Þetta fólk væri ella inni á dýrum rýmum sjúkrahúsanna, mun dýrari sjúklingar.

Ég minni á að þarna eru krabbameinssjúklingar, t.d. utan af landi sem sækja þurfa dagdeildir, en gjöldin hafa hækkað hjá á dagdeildunum. Fyrir fyrstu krabbameinsmeðferð, eins og ég hef nefnt við umræðuna þarf fólk að borga yfir 18.000 kr. Ef fólk fer í meðferð á hálfs mánaðar fresti, þá borgar það yfir 18.000 kr. fyrir fyrstu meðferð og síðan er það komið upp í afsláttarkortið. Þessi stúlka sem ég tók dæmi af borgar minna nú í desember en kortið fellur úr gildi um áramótin og þá þarf hún að byrja aftur að borga fullt þangað til hún nær hámarkinu á afsláttarkortinu.

Er það svona sem hv. þm. vilja forgangsraða, að láta sjúlinga sem geta ekki farið heim til sín og halda þar heimili, borga 21.000 kr. fyrir sjúkrahússdvöl? Við vitum að það er verið að veita þarna hjúkrun. Þetta eru það veikir sjúklingar að þeir geta ekki farið heim til sín og verið þar einir eða sjúklingar sem geta ekki farið heim til sín af því þeir búa fjarri Landspítalanum.

Herra forseti. Ég spyr hv. þm. hvort það að gjaldið sé vægt eða ekki vægt sé ekki alltaf matsatriði, þ.e. hvort 700 kr. á dag er vægt gjald. Ég tel að of hátt gjald sé tekið af sjúklingum á sjúkrahúsum og svo aftur á sjúkrahótelunum.